Viðvarandi fjölgun hefur verið á íbúum borgarinnar undanfarin ár ef frá eru talin árin 2010 og 2012. Fækkun varð þá á íbúum Reykjavíkur, að líkindum í tengslum við efnahagsástand þeirra ára. Það sem má lesa út úr þróuninni síðustu 15 ár er að vöxturinn er drifinn áfram af innflytjendum og að þær breytingar eru mjög tengdar þróun á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg um áhrif ferðaþjónustu á húsnæðis- og vinnumarkað í Reykjavík.

Samkvæmt skýrslunni fjölgaði íbúum Reykjavíkurborgar alls um 10.900 frá 2001 og var hlutur erlendra ríkisborgara 11.100 manns. Íslenskum ríkisborgurum fækkar í reynd. Erlendir ríkisborgarar drífa áfram vöxtinn í íbúafjölda með áberandi hætti 2008, 2009 og 2016 en eru jafnframt þeir sem mest áhrif hafa á fækkun íbúa 2010 og 2012. Erlendum ríkisborgurum fjölgar eða fækkar eftir atvikum þessi ár um meira en heildarbreyting íbúafjöldans segir til um.