Lee Scott, forstjóri Wal-Mart, stærsta smásala heims, varaði á þriðjudag við áhrifum hækkandi eldsneytisverðs á bandaríska neytendur. Viðskiptavinir verslunarkeðjunnar, sem margir hverjir hafa lágar tekjur, eru ákaflega meðvitaðir um efnahag sinn. Því hefur staða fyrirtækisins verið nokkuð góður mælikvarði á efnahagsástandið í Bandaríkjunum.

"Einu raunverulegu áhyggjurnar sem ég hef af efnahagsmálum eru að olíuverð muni að engu gera minnkandi atvinnuleysi og hækkandi tekjur hluta viðskiptahóps okkar -- mikilvægs viðskiptavinahóps," sagði Scott þegar niðurstöður annars ársfjórðungs voru kynntar. "Því vænti ég erfiðleika það sem eftir lifir ársins," bætti hann við.

Varfærnislegar spár fyrirtækisins fyrir næsta ársfjórðung og slakur árangur á öðrum ársfjórðungi höfðu það í för með sér að hlutabréf fyrirtækisins lækkuðu um meira en 3%, í 47,41 Bandaríkjadal á hlutabréfamarkaði í New York. Forsvarsmenn fyrirtækisins sögðu tekjur á öðrum ársfjórðungi hafa hækkað um 5,8%, í 2,8 milljarða dali (178.6 milljarðar íslenskra króna), á meðan sala jókst um 10,2 %, í 76 milljarða dala (4.850 milljarðar króna). Þrátt fyrir að neytendur hafi minna umleikis en áður, vegna hás eldsneytisverðs, sagði Scott að verðbólga virtist vera viðráðanleg og að verðið á dæmigerðri matvörukörfu hjá lágvöruverslunum fyrirtækisins hefði ekki breyst frá fyrra ári, að því er fram kemur fram í Financial Times.

Vöxtur Wall-Mart, sem er í fyrsta sæti á lista Fortune tímaritsins yfir 500 stærstu fyrirtæki heims fjórða árið í röð, hefur minnkað í Bandaríkjunum að undanförnu, meðal annars vegna mikils flutningskostnaðar á dreifileiðum fyrirtækisins. Samkvæmt upplýsingum Tom Schoewe, fjármálastjóra Wall-Mart, eyddi bílakostur fyrirtækisins -- sá stærsti í Bandaríkjunum -- 30 milljónum dala meira við flutning á milli verslana fyrirtækisins á nýliðnum ársfjórðungi en áður. Þá hefur fyrirtækið legið undir ámæli fyrir að notfæra sér markaðsráðandi stöðu sína gagnvart birgjum sínum.

Viðbrögð Wall-Mart við slöku gengi í Bandaríkjunum hafa meðal annars falist í því að lokka til sín betur stæða viðskiptavini sem keppinautnum Targit hefur tekist með góðum árangri. Þá hefur Wall-Mart leitast við að opna búðir á erlendum mörkuðum. Aftur á móti berst fyrirtækið í bökkum í Þýskalandi og hlutur Wall-Mart í japönsku verslanakeðjunni Seiyu hefur ekki skilað tilætluðum árangri, eftir því sem fram kemur í Fortune.

Wall-Mart hefur gengið einna best í þeim löndum þar sem efnahagskerfið er að taka við sér, eins og í Mexíkó, og því hefur stefnan verið sett á Kína enda er mikil uppsveifla í efnahagslífinu þar í landi. Ætlunin er að opna 15 nýjar verslanir í Kína á árinu, meðal annars í Peking og Shanghai og fleiri eru á leiðinni á næstu árum. "Kína er eina landið í heiminum þar sem hægt er að ná sama árangri og í Bandaríkjunum á sínum tíma," sagði David Glass, fyrrum forstjóri keðjunnar, í viðtali við tímaritið Fortune í fyrra, en ekki er hægt að búast við að Wall-Mart nái aftur þeim gífurlega vexti sem það náði í Bandaríkjunum á síðasta áratug.