Stjórn breska knattspyrnufélagsins West Ham United mun hittast á þriðjudaginn til að ákveða hvaða aðili fær að kaupa félagið, segir í frétt breska blaðsins The Sunday Mirror.

Eggert Magnússon, formaður Knattspyrnusambands Íslands, hefur lýst yfir áhuga að kaupa West Ham.

Kaupsýslumaðurinn Kia Joorabchian hefur gert óformlegt kauptilboð í félagið að virði 102 milljónir punda, ásamt skuldum, sem nema 22 milljónum punda.

Stjórnarformaður West Ham, Terry Brown, hefur sagt að hann mun aðeins mæla með sölu til kaupanda sem hefur nægt fjármagn til að snúa félaginu við.

Kauptilboð Joorabichian er fjármagnað af ísraelska auðmanninum Eli Papouchado og talið er að Brown trúi því að Papouchado sé rétti maðurinn til að fjármagna viðsnúninginn. Mirror segir þetta ekki góðar fréttir fyrir Eggert og samstarfsmenn hans.