Vinsælir tölvuleikir eins og World of Worcraft munu snúa aftur til Kína í sumar samkvæmt kínverska tölvuleikjafyrirtækinu NetEase.

Á síðasta ári slitu NetEase og tölvuleikjaframleiðandinn Activision Blizzard 14 ára samstarfi sínu vegna ágreinings um hugverkaréttindi. Brotthvarf Activision vakti mikla reiði meðal Kínverja þar sem margir misstu aðgang að uppáhaldsleikjunum sínum.

Allir tölvuleikir í Kína þurfa fyrst og fremst leyfi frá kínverskum stjórnvöldum og þurfa framleiðendur síðan að reiða sig á kínverskan útgefanda.

Fyrsti ágreiningurinn átti sér stað þegar fyrirtækin tvö kærðu hvort annað. Spennan á milli fyrirtækjanna minnkaði hins vegar þegar Microsoft keypti Activision Blizzard fyrir 69 milljarða dala í október á síðasta ári.

„Við erum gríðarlega þakklát fyrir þá ástríðu sem kínverska samfélagið hefur sýnt Blizzard-leikjunum í gegnum tíðina. Við einbeitum okkur að því að koma tölvuleikjaheimum okkar aftur til leikmanna með yfirburðum og ákveðni,“ segir Johanna Faries, forseti Blizzard Entertainment.

Aðrir tölvuleikir sem Kínverjar munu aftur fá aðgang að eru Hearthstone, Warcraft, Overwatch, Diablo og StarCraft.

Ómissandi markaður

Kína er stærsti tölvuleikjamarkaður í heimi en innlendar tekjur þess jukust um 13% í lok síðasta árs og námu þá 42 milljörðum dala. NetEase er þá stærsta tölvuleikjafyrirtæki Kína miðað við tekjur en þar á eftir kemur Tencent, sem starfrækir meðal annars samfélagsmiðlaforritið WeChat.

Kínversk stjórnvöld byrjuðu að streitast gegn tölvuleikjageiranum árið 2021 og ákváðu að þeir sem væru yngri en 18 ára fengju aðeins að spila í einn klukkutíma á dag og þá aðeins á föstudögum, um helgar og á frídögum.

Seint á síðasta ári tilkynntu stjórnvöld svo að frekari takmarkanir gegn því sem kallast in-game purchases, þar sem leikmenn geta keypt aukahluti í leiknum sjálfum jafnvel eftir að hafa greitt fyrir sjálfan leikinn. Með því vildi ríkisstjórnin sporna gegn því sem hún kallaði þráhyggjufulla spilamennsku.