Skógarböðin, nýtt baðlón í Vaðlaheiði gegnt Akureyri, hagnaðist um 112 milljónir á síðasta ári en aðstaðan opnaði aðeins í maí 2022. Sala félagsins nam 466 milljónum króna á árinu og því er ljóst að Skógarböðin eru þegar orðin eitt veltumesta baðlón landsins.

Á ‏þeim tólf mánuðum sem böðin hafa verið starfrækt þá hafi þau tekið á móti um 106 þúsund gestum. Áætlanir gerðu ráð fyrir 50 þúsund gestum fyrsta árið og að gestakomur yrðu síðar nær 75-80 þúsund á ári.

Birkir Bjarnason næst stærsti hluthafinn

Stofnendur og aðaleigendur Skógarbaðanna eru hjónin Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður María Hammer. Þau keyptu jörðina í september 2020 og framkvæmdin sjálf tók aðeins fjórtán mánuði. Hugmyndin að Skógarböðunum spratt út frá því að heitt vatn hafði runnið ónýtt til sjávar úr heitavatnsæð sem opnaðist þegar borað var fyrir Vaðlaheiðargöngum árið 2014.

Næst stærsti hluthafi Skógarbaða með 13,7% hlut er félagið Bjarnason Holding ehf. sem er í eigu Birkis Bjarnasonar, landsliðsmanns í knattspyrnu.

Nánari umfjöllun um Skógarböðin og viðtal við Finn Aðalbjörnsson má finna í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér.