Seðlabanki Íslands tilkynnti í síðustu viku lækkun stýrivaxta úr 5,75% í 5,25%. Bankinn hefur verið gagnrýndur fyrir að halda vöxtum og háum undanfarna mánuði þrátt fyrir litla verðbólgu.

Á blaðamannafundi síðastliðinn miðvikudag þar sem vaxtaákvörðun Seðlabankans var kynnt svaraði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingurbankans, þeirri gagnrýni að bankinn hefði verið of aðhaldssamur í peningastefnu sinni með of háum vöxtum.

„Ég hef sagt það nokkrum sinnum í kjölfar þessara launahækkana að sama hvernig færi, þá yrðum við skammaðir,“ sagði Þórarinn. Bankinn hafi brugðist við launahækkunum með hækkun vaxta til að halda verðbólgu niðri. Ef það heppnaðist myndi fólk gagnrýna bankann fyrir hækkunina og benda á að verð- bólgan væri enn við markmið og því hefði aðgerðin verið óþörf.

„En ef við hefðum ekki hækkað vextina hefði verðbólgan væntanlega orðið miklu hærri og þá hefð- um við verið skammaðir fyrir það,“ sagði Þórarinn. Jafnframt þyrfti bankinn að bregðast við breyttum aðstæðum.

„Þegar hlutirnir breytast þurfum við að bregðast við því. Við höfum ítrekað sagt að við gerum það sem þarf til að halda verðbólgunni í markmiði og þetta [innsk. vaxtalækkunina] má alls ekki lesa sem svo að við gefum einhvern afslátt af því. Við erum bara að segja að nú séu skýrari merki um það að við getum náð þessu markmiði með lægra vaxtastigi en við þorðum að vona fyrr. Kannski hafa fyrri yfirlýsingar og skilaboðin þar haft hlut að máli,“ bætti Þórarinn við.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði einnig að bankinn yrði að bregðast við breyttum aðstæðum: „Auðvitað getur ekki verið algjör fyrirsjáanleiki og þið megið ekki bara reiða ykkur á það sem við sögðum fyrir mörgum vikum síðan. Eins og Keynes sagði: „Þegar staðreyndirnar breytast, þá breyti ég stefnu minni. Hvað gerir þú?““

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .