Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri kísilmálmverksmiðju Elkem á Grundartanga, segir verð á kísilmálmi hafa verið mjög hátt undanfarin ár og innrás Rússlands í Úkraínu hafi skapað frekari þrýsting á verðin. „Innrás Rússlands í Úkraínu hefur sett sitt mark á reksturinn. Rússland og Úkraína eru bæði stór framleiðsluríki og þetta ástand skapar því skort og verðþrýsting á ýmsan varning sem snertir okkur með beinum og óbeinum hætti. Rússland er til að mynda stór framleiðandi á kísilmálmi.“

Hún nefnir að bæði Rússland og Úkraína séu mikið stærri framleiðendur en hún hafi sjálf gert sér grein fyrir áður en stríðið hófst. Bæði löndin framleiði aðföng sem notuð eru í framleiðslu kísilmálms á Grundartanga en framboð á þeim vörum hefur minnkað núna og verð hækkað. „Til að mynda höfum við verið að kaupa járnkúlur frá Rússlandi sem eru ekki í boði lengur. Einnig fáum við töluvert mikið af íhlutum og efnum frá Úkraínu, en höfum þurft að leita annarra leiða til að verða okkur úti um þau aðföng síðan stríðið hófst.“ Hún segir starfsfólkið í rauninni hafa þurft að halda áfram neyðarstjórn sem þau hafi viðhaft síðastliðin tvö ár vegna áhrifa heimsfaraldursins.

Þá kveðst hún hugsi yfir ástandinu í heimshagkerfinu, mikill skortur sé í heiminum og verðbólgan komin á flug. Það byggist ekki upp nein birgðastaða í þessu ástandi og þrýstingurinn á verðin sé ekkert að minnka. „Við erum mjög fljót að finna fyrir verðbólgunni því við erum svo snemma í aðfangakeðjunni. Aðföngin okkar eru aðallega hrávörur sem koma beint úr námum í okkar framleiðslu, þaðan sem hún fer til stálveranna. Ég sjálf er svo nokkra mánuði að finna fyrir verðhækkununum þegar ég fer út í matvörubúð.“

Viðtalið við Álfheiði er hægt að lesa í heild sinni í tímariti Frjálsrar verslunar.