Uppsveifla hefur verið á íslenskumhlutabréfamarkaði í heimsfaraldrinum. Íslandsmet hafa fallið í hlutafjárútboðum á árinu, Kauphöllin hefur tvöfaldast aðstærð frá árinu 2019 og almenningur er farinn að kaupa hlutabréf á ný.

Umræðan um hlutabréfamarkaðinn hefur breyst töluvert á skömmum tíma. Fyrir ríflega ári voru ýmis neikvæð merki á lofti, jafnvel þótt útboð Icelandair hefði heppnast vel. Yfirtökutilboð stóðu yfir í Eimskip og Skeljungi þar sem fjárfestahópur vildi afskrá síðarnefnda félagið. Heimavellir höfðu þegar verið afskráðir eftir að norskt fasteignafélag keypti félagið. Kvika og TM voru að sameinast og þar með fækkaði félögunum í Kauphöllinni um eitt. Þá hafði ekkert félag verið skráð á markað frá árinu 2018.

Nú eru hins vegar stjórnendur og eigendur nokkurra fyrirtækja að velta fyrir sér hvort skrá eigi þau á markað, meðal annars vegna hinnar miklu þátttöku í nýlegum hlutafjárútboðum. Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, hefur sagt að hann sé vongóður um nokkrar skráningar í vetur. Eftir skráningu Íslandsbanka, Play, Síldarvinnslunnar og Solid Clouds á markað í sumar eru nú tuttugu félög á aðalmarkaði og sex á First North markaðnum, sem ætlaður er minni fyrirtækjum. Til samanburðar voru félögin um 75 í kringum aldamótin. Fæst voru félögin árið 2011 þegar fjögur íslensk og þrjú færeysk félög voru á aðalmarkaði Kauphallarinnar.

Magnús sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í sumar að til lengri tíma litið ætti stærð Kauphallarinnar að geta orðið álíka og á hinum Norðurlöndunum. Í nýlegri greiningu Jakobsson Capital er bent á að heildar markaðsvirði íslensku kauphallarfélaganna nemi um 85% af landsframleiðslu en 228% í Svíþjóð og 195% í Danmörku. Hlutfallið hér á landi fór hæst yfir 250% um mitt ár 2007 en hrundi niður í 11% eftir bankahrunið.

Fjallað er um íslenskan hlutabréfamarkað í bókinni 300 stærstu sem Frjáls verslun gaf út fyrir skömmu.