Í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmutdaginn fjallaði Óðinn um fjármál Reykjavíkurborgar og veltir sérstaklega fyrir sér hvort borgin stefni í greiðsluerfiðleika.

Hér er stutt brot úr pistli Óðins en áskrifendur geta lesið hann hér.

12 milljarða yfirdráttarheimild hjá ríkisbönkum

Borgarsjóður hefur tilkynnt um að hann hafi tvær lánalínur. Báðar hjá ríkisbönkunum, Landsbanka og Íslandsbanka. Hvor að fjárhæð 6 milljarðar króna, önnur til 10 ára og hin til 15.

Venjan er sú að þegar fyrirtæki fá lánalínur þá sé það gegn veðum eða firnasterkum efnahag. Fróðlegt verður að sjá hver kjörin eru á þessum lánalínum og hver veðin eru.

Því ekki er efnahagurinn burðugur hjá borgarsjóðnum.

Ef veðin eru engin eða kjörin ekki í takt við áhættuna þá hljóta ríkisbankastjórarnir tveir að svitna þessa dagana.

Því markaðurinn hefur fellt sinn dóm um hvert álagið er á bréfunum. Reyndar vill markaðurinn ekki sjá skuldabréf frá Reykjavíkurborg.

Afleiðingin af því er sú að álagið á bréf borgarinnar hafa hækkað mikið í samanburði við skuldabréf ríkisins.

***

Tuttugu ára söngur Dags

Dagur B. Eggertsson hefur í yfir 20 ár varið skuldasöfnun Reykjavíkurborgar. Það þarf mikið til að setja olíuskip á hliðina, en þegar það gerist þá er það með miklum látum.

Sama gildir um fjárhag risastórs sveitarfélags, sem var svo til skuldlaust árið 1994 þegar vinstri menn komust til valda.

Dagur skrifaði grein í Morgunblaðið fyrir 21 ári síðan, nánar tiltekið á verkalýðsdeginum 1. maí. Fyrirsögn greinarinnar setti tóninn: „Sterk staða og eftirsóttustu skuldir landsins.

Óðinn fjallaði um þessa grein í september 2015 og er rétt að rifja aðeins upp það sem þá var sagt. Það sem er að gerast í rekstri borgarinnar hefur gerst á löngum tíma, hægt en örugglega.

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins í síðustu viku kom fram að skuldir Reykjavíkurborgar hafi 26-faldast að raungildi frá árinu 1986. Það ár voru skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar [A og B hluti] um 10,5 milljarðar króna að núvirði. Í dag nema þessar skuldir tæpum 273 milljörðum. Þetta er að frátöldum lífeyrisskuldbindingum, sem nema um 20 milljörðum, og ábyrgðum borgarinnar gagnvart þriðja aðila, sem nema um 180 milljörðum.

Þessi þróun er ekki í neinu samræmi við íbúaþróun, en íbúum hefur fjölgað um 44% á tímabilinu. Munurinn er raunar enn meiri ef skuldir ársins 1986 eru bornar saman við skuldir borgarinnar þegar mest lét í lok árs 2009, þegar þær námu tæpum 370 milljörðum króna. Munurinn þar á er 36-faldur.

***
Þetta eru sláandi tölur og bera þess glöggt merki að frá upphafi tíunda áratugarins hafi hafist í borginni tímabil þar sem eyðsla og skuldasöfnun var svo gegndarlaus að óséð er um hvort og þá hvenær útsvarsgreiðendur í Reykjavík munu geta greitt upp skuldir borgarinnar.

Þegar leið á fyrsta áratug þessarar aldar jókst skuldasöfnunin enn hraðar.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út miðvikudaginn 13. apríl. Áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.