Áður fyrr tengdi ég það að standa á tímamótum við atburði eins og útskriftir, stórafmæli, brúðkaup, fæðingu barna eða við stóra breytingu á persónulegu munstri.

Það voru sannarlega tímamót í mínu lífi þegar ég var ráðinn forstjóri Eimskips í upphafi árs 2019. Á sama hátt var ljóst að það voru einnig tímamót hjá fyrirtækinu.

Með breyttu eignarhaldi komu nýjar áherslur og skilaboð stjórnar voru skýr um að nauðsynlegt væri að samþætta, einfalda og hagræða í rekstrinum. Auka þannig arðsemi til að geta fjárfest í innviðum félagsins og tryggja með því áfram framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini og samkeppnishæfni til framtíðar.

Á þeim tíma sem liðinn er hafa verið ýmis tímamót í rekstri félagsins, vegna margvíslegra ytri atburða, en ekki síður vegna tímamóta í starfsemi félagsins sem við stjórnendurnir höfum skapað sjálf til þess að stuðla framþróun fyrirtækisins.

Eftir tímabil ytri vaxtar hjá Eimskip á árunum 2012 til 2017, sem fólust m.a. í kaupum á erlendum fyrirtækjum í flutningsmiðlun, hófst nýr kafli samþættingar með það að markmiði að auka skilvirkni og arðsemi. Skrifstofum var fækkað með sameiningum og markvisst unnið að því að samþætta rekstur félagsins.

Það hefur sýnt sig að sú menningarbreyting að innleiða tíða og viðeigandi árangursmælikvarða í rekstrinum og tengja mælingar virku samtali við stjórnendur, þar sem áherslan er á gæði afkomu umfram flutningsmagn, reyndist góð ákvörðun sem markað hefur tímamót í rekstrinum.

Hryggjarstykkið í rekstrinum

Gámasiglingakerfið er hryggjarstykkið í rekstri Eimskips og mikil vinna hefur farið í að bæta afkomu þess, sem og að aðlaga þjónustuna að þörfum viðskiptavina. Mikil áhersla hefur verið lögð á að tryggja áreiðanleika í siglingakerfinu og viðhalda góðri þjónustu. Gott aðgengi að gámum og framúrskarandi tengingar við önnur erlend flutningskerfi gera viðskiptavinum okkar kleift að senda vörur sínar um allan heim.

Það voru tímamót að taka í rekstur tvö stærstu gámaskip sem hafa þjónustað Ísland, Brúarfoss og Dettifoss, og hefja samhliða samstarf við grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line og þar með opna Grænlendingum leið að heildar siglingakerfi Eimskips.

Breyttur kúltúr

Lykilþáttur að baki þeim árangri sem hefur náðst í rekstrinum síðustu misseri er umbreyting í fyrirtækjamenningu. Veggir hafa verið brotnir niður í orðsins fyllstu merkingu, við höfum byggt brýr á milli eininga, stytt boðleiðir og aukið samskipti.

Minn stjórnunarstíll einkennist af ríkri áherslu á að deila upplýsingum og tíðar mælingar á árangri í rekstri. Þannig styrkjum við ákvörðunartöku og gerum stjórnendur ábyrgari fyrir afkomu sinna sviða.

Það voru mikilvæg tímamót á árinu þegar við hófum á ný að þróa hæfileikafólk á alþjóðavísu innan félagsins með markvissum hætti í gegnum arftakaáætlanir og metnaðarfulla leiðtogaþjálfun fyrir núverandi stjórnendur og leiðtoga framtíðarinnar.

Byggjum á okkar sérstöðu

Mestu verðmæti Eimskips eru fólgin í reynslumiklu og metnaðarfullu starfsfólki. Við byggjum á arfleifð félagsins sem er sérhæfing í flutningum á kældum og frystum matvælum.

Á heimsvísu eru flutningar á kældum og frystum vörum um 2% af heildar magni í flutningum, en í alþjóðlegri flutningsmiðlun Eimskips er hlutfallið um 75%. Við höfum skerpt á sérstöðu okkar í siglingum á okkar mikilvæga heimamarkaði við Norðurslóðir sem tengir Evrópu og Ameríku frá norður Noregi til Færeyja og Íslands, Grænlands, Nýfundnalands og til Nýja Englands á norðausturhorni Bandaríkjanna.

Heimamarkaðurinn tengir saman svæði og samfélög sem eru rík af náttúruauðlindum til útflutnings og háð innflutningi á neysluvörum og aðföngum til innviðauppbyggingar. Það voru tímamót að hefja flutning á ferskum laxi til Bandaríkjanna undir merkjum Fresh by sea og sjá á sama tíma aukningu í innflutningi á ferskum ávöxtum og grænmeti með hraðleið okkar frá Rotterdam til Reykjavíkur.

Fjárfestingar til framtíðar

Það eru tímamót að vera nú komin á þann stað að geta hugað að fjárfestingum til framtíðar. Við höfum metnað til þess að vera í fararbroddi í umhverfisvænum flutningum, ekki síst til að styrkja þjónustu okkar við vaxandi iðnað eins og laxeldi auk þess að halda áfram að þróa skilvirkar lausnir í innflutningi á ferskvöru.

Við hugum nú að smíði nýrra skipa sem munu styðja við þjónustuna okkar, áreiðanleika og getu í siglingakerfinu og markmiðið er að ný skip verði umtalsvert umhverfisvænni og styðji við metnað okkar í loftlagsmálum.

Ég hlakka til að takast á við tímamótaverkefni næsta árs með frábæru starfsfólki Eimskips.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út fimmtudaginn 29. desember.