„Viðreisn vill tengja krónuna við evru, líkt og Danir hafa gert. Það mun færa stöðugleika sem hér vantar og það mun lækka kostnað fólks við að eignast heimili og að reka það,“ skrifaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í grein sem birtist í Morgunblaðinu fyrir ári síðan.

Þessi orð formanns Viðreisnar frá því fyrir rétt um ári síðan hafa elst alveg sérstaklega illa. Það er einfaldlega alrangt að tenging íslensku krónunnar við evru tryggi stöðugleika. Það sýna vaxtahækkanir í Danmörku og það sýna húsnæðisverðslækkanir í Danmörku einnig.

Íbúðaverðið lækkar

Í þarsíðustu viku fullyrti Óðinn að húsnæðisverð á Íslandi myndi lækka, rétt eins og í Danmörku og Svíþjóð. Í vikunni tilkynnti Hagstofan að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,4% í ágúst.

Þetta er auðvitað bara byrjunin því Seðlabankinn hefur þrengt mjög möguleika þeirra sem eru að fara inn á fasteignamarkaðinn og hækkað vexti hraðar en flestir bjuggust við – og meira.

Óðinn er reyndar þeirrar skoðunar að aðgerðir Seðlabankans séu yfirskot. Það verður þó að viðurkenna að þessi línudans er vandasamur.

Lækkun fasteignaverðs mun kæla verðbólguna og það mun sjást í tölunum í haust, en fasteignaverðið hefur suma mánuði síðasta árið verið næstum helmingurinn af vísitöluhækkuninni.

En sú hækkun var auðvitað óþörf ef byggðar hefðu verið nægilega margar íbúðir.

Ætli Ríkisútvarpið muni spyrja Þorgerði um þetta skipbrot efnahagsstefnu Viðreisnar? Varla, enda Þorgerður óformlegur formaður hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins.

Og ætli Ríkisútvarpið muni spyrja Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur borgarfulltrúa um þátt Viðreisnar í verðbólgu og óstöðugleika í íslensku efnahagslífi. Varla.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær, 22. september 2022.