Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa starfsmenn Orkustofnunar veitt virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár. Þeir hafa gefið sér drjúgan tíma til verksins en Landsvirkjun sótti um leyfið í júní í fyrra.

Fram kom í viðtali við Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar, í Morgunblaðinu á dögunum tók það Orkustofnun um þrjátíu daga að afgreiða leyfisveitingar vegna tveggja síðustu stórvirkjana fyrirtækisins. Augljóslega hefur eitthvað breyst hjá Orkustofnun í þessum efnum. Innherji, viðskiptavefur Vísis, hefur eftir Jóni Skafta Gestssyni, sérfræðingi í hagrænum greiningum hjá Landsneti, að Orkustofnun hafi ítrekað farið langt umfram lögbundinn málsmeðferðartíma fyrir kerfisáætlun Landsnets sem er grundvöllur allrar áætlunargerðar fyrir raforkukerfið á Íslandi. Sá málsmeðferðartími er ríflega þrír mánuðir.

Þessar tafir eru kostnaðarsamar og hleypur sá kostnaður á milljörðum á ári hverju. Þannig er bent á í umfjöllun Innherja um Hvammsvirkjun að Landsvirkjun hafi tapað um fimm milljörðum vegna dráttar á veitingu virkjunarleyfis. Morgunblaðið leitaði svara hjá Orkustofnun við spurningum um hvað ylli þessum töfum. Verða þau svör að teljast rýr í roðinu og vekur furðu að fjölmiðlar gangi ekki harðar eftir frekari útskýringum miðað hversu mikið er í húfi og hvort stofnunin hafi engar verklagsreglur um afgreiðslu mála.

Í stuttu máli er haft eftir Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra að mikið álag sé á stofnuninni og hafi verið brugðist við því með því að óska eftir aukinni fjárveitingu. Ekki verður séð á heimasíðu Orkustofnunar að leyfisveitingum hafi fjölgað eitthvað sérstaklega á undanförnum árum og á það við um virkjunarleyfi sem og önnur leyfi. Fróðlegt væri ef fjölmiðlar leituðu svara hjá stofnuninni hversu margar leyfisveitingar eru til umfjöllunar hjá stofnuninni nú og hversu lengi þær hafa verið uppi á borði stofnunarinnar. Ekki síst í ljósi þess að fjölmiðlar fjalla mikið um orkuskipti og loftlagsmál. Í þeim efnum eru sterkar vísbendingar um að Íslendingar hafi sofið á verðinum og seinagangur við uppbyggingu raforkuframleiðslu hér á landi kunni að koma í bakið á mönnum á næstu áratugum.

***

Þó svo að ofangreind svör séu rýr er ekki svo að Orkustofnun og stjórnendur hennar forðist kastljós fjölmiðla. Þrátt fyrir að mikið álag sé á starfsmönnum stofnunarinnar að sögn orkumálastjóra hafa þeir fundið sér tíma til þess að þróa nýtt orkuskiptalíkan sem er aðgengilegt á sérstakri vefsíðu. Þar geta notendur gert sína eigin orkuspá eftir mismunandi forsendum. Án þess að fleiri orðum sé eytt í þetta verður að komist hjá því að Veðurstofan feti í fótspor Orkustofnunar. Það væri við hæfi nú á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar að hver og einn gæti verið sinn eigin veðurfræðingur.

Orkuskiptalíkanið var kynnt á opnum fundi á dögunum. Fjallað var um fundinn með ítarlegum hætti í Kjarnanum. Þar lagði Halla Hrund orkumálastjóri fram „matseðil möguleika“ til að stuðla að orkuskiptum og ná á sama tíma loftlagsmarkmiðum stjórnvalda. Í stuttu máli felur sá matseðill í sér að Orkustofnun verði fært alræðisvald yfir íslenskum efnahag. Í ljósi hversu djörf sú tillaga er vekur athygli að aðrir fjölmiðlar hafa ekki fjallað um hana í ríkari mæli en raun ber vitni.

En eins og bent var á á öðrum vettvangi í þessu blaði í síðustu viku er ýmislegt áhugavert við orkuspá Orkustofnunar. Þá fyrst og fremst að stofnunin býst ekki við sérlega miklum vexti raforkuframleiðslu á næstu árum. Hugsanlega er það vegna seinagangs við leyfisveitingar stofnunarinnar en látum þá skýringu liggja milli hluta. Þannig gerir stofnunin ráð fyrir að ekki þurfi að auka raforkuframleiðslu nema um 5% fram til ársins 2040 til að hún standi undir orkuskiptum. Það er mun minna en útreikningar sérfræðinga Eflu, Samorku, RARIK, Landsnets, Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar sem sýndi að auka þyrfti raforkuframleiðslu um 80% til að ná markmiðum stjórnvalda um full orkuskipti. Fjölmiðlar þyrftu að leita eftir skýringum á þessu mikla misræmi.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 8. desember 2022.