*

laugardagur, 25. september 2021
Baldur Thorlacius
4. september 2021 13:43

Leiðarvísir inn á hlutabréfamarkað

það er heilmikið ferðalag að fara á markað og eins og með önnur ferðalög er hægt að fara margar leiðir á sama áfangastaðinn.

Það sem af er ári hafa fjögur félög farið á hlutabréfamarkað hér á landi og áhuginn á skráningum hefur sjaldan verið meiri. Gjörbreytt fjárfestalandslag, lágir vextir og vitundarvakning um kosti skráningar eru líklega að keyra þetta innflæði nýrra fyrirtækja á markað, sem lítið lát virðist vera á.. En það er heilmikið ferðalag að fara á markað og eins og með önnur ferðalög er hægt að fara margar leiðir á sama áfangastaðinn.

Frumútboð

Sú leið sem flestir hugsa til þegar skráning á markað ber á góma er frumútboð (e. initial public offering / IPO). Í stuttu máli: Fyrirtæki undirbýr verkferla og upplýsingagjöf, haldið er almennt útboð þar sem gefið er út nýtt hlutafé, og/eða eldri hluthafar selja hluti, og í kjölfar þess er félagið skráð á markað.

Frumútboð nýtast ekki bara við sjálfa fjáröflunina/söluna heldur eru þau einnig góð leið til að koma fyrirtækinu á kortið hjá fjárfestum, fjármálafyrirtækjum, viðskiptavinum og öðrum hagaðilum, sem getur m.a. stutt við seljanleika eftir skráningu og bætt fjármögnunarmöguleika þess á síðari stigum.

Verðleggja þarf frumútboð þannig að það verði hæfilegt frumútboðspopp (e. IPO pop), sem er verðhækkunin á markaði eftir útboð, en ekki þannig að of mikið sé gefið eftir. Kjölfestufjárfestar, sem koma inn í aðdraganda frumútboðs eða skuldbinda sig til að fjárfesta í sjálfu útboðinu, geta aðstoðað við verðlagninguna og dregið úr óvissu. „Réttu" kjölfestufjárfestarnir geta einnig laðað að fleiri fjárfesta og komið með dýrmæta þekkingu og tengsl inn í fyrirtækið.

Svo er það almenningur, sem hefur á skömmum tíma farið frá því að vera hálfgerð afgangsstærð í fjárfestamenginu - bara boðið að vera með því það þurfti að bjóða honum - í að leika lykilhlutverk í stórum útboðum. Þegar mögulegir fjárfestar skipta tugum þúsunda er ekki hægt að ræða við hvern og einn þeirra yfir kaffibolla. Það kallar á aðra nálgun.

Það þarf að koma skilaboðunum á framfæri við alla í einu, af heiðarleika og einlægni og á jafnræðisgrunni. Skriflegar tilkynningar á mannamáli, viðtöl, samfélagsmiðlar, opnir fjárfestafundir o.s.frv. Þannig geta fyrirtæki eignast öfluga bandamenn í einstaklingsfjárfestum, sem aðstoða ekki einungis við fjármögnun heldur verða einnig traustir talsmenn fyrirtækisins út á við. En slíkt samtal hentar ekki endilega öllum og ábatinn getur verið misjafn eftir eðli starfseminnar.

Beinar skráningar

Sumir vilja fyrst og fremst nýta umgjörðina og sýnileikann sem fæst með skráningu á markað til að fá inn fjölbreyttan hóp fagfjárfesta, án þess endilega að leggja mikla áherslu á almenning. Vilja vaxa og dafna á markaði og fara svo mögulega í almennt útboð síðar. Þá getur svokölluð bein skráning (e. direct listing) hentað vel, en það er skráning án frumútboðs.

Nýlega voru samþykktar breytingar á reglum Nasdaq First North sem liðka fyrir beinum skráningum, með því að draga úr kröfum um fjölda hluthafa. Eftir gildistöku þeirra verður hægt að skrá félög á First North með allt niður í 50 hluthafa og afar hóflega viðskiptavakt.

SPAC

Einnig má nefna skráningu í gegnum samruna við sérhæft yfirtökufélag (e. special purpose acquisition company / SPAC), sem hefur verið möguleg hér á landi frá því fyrr á þessu ári. Sérhæft yfirtökufélag er í reynd fyrirtæki án reksturs sem er stofnað í þeim tilgangi að afla fjármagns, með frumútboði og skráningu á markað, til að taka yfir annað fyrirtæki.

Við þá yfirtöku verður hið yfirtekna í reynd að skráðu félagi (að undangengnu skráningarferli). Mikill uppgangur hefur verið í skráningum sérhæfðra yfirtökufélaga vestanhafs og Evrópa virðist ætla að stefna í sömu átt. Fyrirtæki sem eru að huga að skráningu á markað geta því eftir atvikum leitað til sérhæfðra yfirtökufélaga og samið um kaup og kjör, í stað þess að fara sjálf í frumútboð eða beina skráningu. Ekkert sérhæft yfirtökufélag er skráð hér á landi enn sem komið er, en það verður fróðlegt að sjá hvort þessi leið verði farin í framtíðinni.

Hvaða markað?

Loks getur val á markaði skipt miklu máli. Aðalmarkaður hentar betur fyrir stærri og rótgrónari fyrirtæki á meðan First North er sniðinn að þörfum vaxtarfyrirtækja. Í einhverjum tilfellum getur skráning á erlenda markaði komið til greina og jafnvel tvískráning. Allt fer þetta eftir stærð, þroska og framtíðaráætlunum viðkomandi fyrirtækis sem og hvar fjárfestaáhuginn liggur.

Hvert skal heitið?

 Það eru miklir möguleikar í boði og umhverfið er í sífelldri mótun. Fyrsta skrefið er alltaf að afla frekari upplýsinga, ræða við fyrirtækjaráðgjafa, Kauphöllina, hluthafa, fjárfesta og aðra hagaðila, sjá hvort skráning gæti hentað og þá hvaða leið ætti að fara.

Í upphafi þessa pistils líkti ég skráningu á markað við áfangastað. Millilending ætti líklega frekar við, því við sjálfa skráninguna hefst annað spennandi ferðalag.

Höfundur er framkvæmdastjóri viðskiptatengsla og sölu hjá Nasdaq á Íslandi.

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.