Íslensk stjórnvöld hafa sett það markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust eigi síðar en árið 2040 og óháð jarðefnaeldsneyti fyrir 2050. Í því skyni hefur íslenskt atvinnulíf tekið höndum saman og unnið Loftslagsvegvísi atvinnulífsins.  Honum er ætlað að veita yfirsýn yfir núverandi stöðu og setja loftslagsaðgerðir þess í stærra samhengi. Vegvísirinn mun auðvelda atvinnulífi og stjórnvöldum að finna í sameiningu aðgerðir, hvata, ívilnanir og fleira sem styðja við loftslagsaðgerðir í íslensku atvinnulífi.

Breið samvinna

Að gerð loftslagsvegvísisins standa Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Bændasamtök Íslands og Grænvangur. Einstakar atvinnugreinar hafa þegar tekið málin föstum tökum og gert áætlanir um hvernig þær munu leitast við að uppfylla sínar skyldur. Einnig hafa fjölmörg fyrirtæki sett sér sambærileg markmið. Árangri í loftslagsmálum verður ekki náð nema atvinnulífið leiki þar stórt hlutverk, einkum þegar kemur að tækniþróun, nýsköpun, hönnun og umhverfisvænum lausnum. Ekkert af þessu nær flugi nema atvinnulífið hafi borð fyrir báru til fjárfestinga í grænum lausnum.

Orkuskipti og nýsköpun

Helstu tækifæri atvinnulífsins liggja í fjárfestingum í orkuskiptum og nýsköpun í framleiðslu. Íslendingar eru komnir vel á veg á ýmsum sviðum orkuskipta. Raforkuframleiðsla og húshitun eru nú þegar að fullu grænar. Orkuskipti fólksbíla eru á góðri leið, en sameiginlegs átaks er þörf til að innleiða græna bílaleigubíla. Næstir í röðinni eru landflutningar, en þar er framboð ökutækja enn takmarkað. Þar á eftir munu koma orkuskipti í skipum og flugvélum. Alþjóðleg framþróun tæknilausna mun þar ráða ferðinni að miklu leyti. Jafnframt er nægilegt aðgengi að samkeppnishæfri orku og uppbygging innviða forsenda orkuskipta og tryggja þarf að regluverk hamli ekki nauðsynlegri uppbyggingu á grænum orkukostum.

Allir með

Nýsköpun og fjárfesting á öllum sviðum atvinnulífsins eru mikilvægar forsendur árangurs í loftslagsmálum. Nýrrar tækni er m.a. þörf til að draga úr losun frá málmframleiðslu. Innlend málmframleiðsla nýtir nú þegar nánast eingöngu græna orku. Þar felast sóknarfærin einkum í nýsköpun við efnaferlana sjálfa og samdrátt í notkun kolefnis við framleiðsluna. Innlendri orkuvinnslu fylgir afar lítil losun í samanburði við önnur lönd, en markvisst er unnið að því að draga enn frekar úr henni. Nýsköpun í sjávarútvegi hefur þegar skilað miklum samdrætti losunar, en frekari tækifæri liggja víða. Tækifæri í landbúnaði liggja m.a. í bættri áburðarnotkun og nýsköpun í fóðurgerð til að draga úr iðragerjun. Lykilatriði til að draga úr losun frá úrgangi er að draga úr urðun með því að efla flokkun, endurnýtingu, endurvinnslu og aðrar hringrásarlausnir. Fjármálastarfsemin sjálf losar ekki umtalsvert magn gróðurhúsalofttegunda, en áhrif hennar á aðrar atvinnugreinar geta verið umfangsmikil og skilvirk.

Fjárfestingar í orkuskiptum og nýsköpun eru í mörgum tilvikum áhættusamar og dýrar, án þess að hægt sé að treysta því að þær séu arðbærar. Stjórnvöld geta auðveldað fyrirtækjum að ráðast í nauðsynlega umhverfisvæna fjárfestingu, m.a. með því að taka sérstakt fjárhagslegt tillit til umhverfisvænna fjárfestinga og fyrirtækja. Þótt slíkar aðgerðir kosti útlát í byrjun er ávinningurinn til langframa mun meiri. Sérstaklega þarf að huga að því að tekjur vegna umhverfisskatta, m.a. kolefnisgjöld og tekjur vegna ETSkerfisins, verði nýttar að fullu til grænna verkefna atvinnulífsins og sýnt verði fram á gagnsæi í þeim efnum.

Verkefnin fram undan

Endurskoða þarf regluverk, stjórnsýslu og eftirlit þannig að þessir þættir standi ekki í vegi fyrir jákvæðum umbreytingum fyrirtækja á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Mikilvægt er að regluverk styðji við slíka þróun og umbuni aðilum sem stýra starfsemi sinni í átt að umhverfisvænni ferlum og starfsháttum, frekar en íþyngi.

Þá þurfa kröfur um kolefnishlutleysi að vera skýrar og raunhæfar. Skýra þarf hvernig staðfesta eigi kolefnisföngun, bindingu og hagnýtingu koldíoxíðs með alþjóðlega viðurkenndum hætti svo að atvinnulífið geti með fullri vissu fjárfest í viðurkenndum aðferðum til samdráttar á útblæstri gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnunar.

Ljóst er að bestum árangri í loftslagsmálum verður náð með nánu samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda. Atvinnulífið hefur sýnt að það vinnur og mun vinna að fyrrgreindum markmiðum af ábyrgð og festu en leikreglur og stuðningur þurfa að vera til staðar til að hægt sé að ráðast í loftslagsvænar fjárfestingar og ákvarðanatöku. Afrakstur samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda getur orðið grundvallarþáttur í því að tryggja að markmiðum verði náð og samhliða stuðlað að aukinni samkeppnishæfni fyrirtækja á alþjóðamörkuðum.

Höfundur er forstöðumaður Grænvangs.