Það er víst þannig að rangar fullyrðingar verða ekki sannar við þetta að þær séu endurteknar. Þessi hugsun kom upp við lestur leiðara Elínar Hirst í Fréttablaðinu á þriðjudaginn í síðustu viku. Þar segir:

Stórútgerðarfyrirtækið Samherji fer fram með þeim hætti að það vekur margar óþægilegar spurningar. Fyrirtækið hefur sem kunnugt er sett á fót sérstaka skæruliðadeild til þess að reyna að koma óorði á þá sem hafa upplýst um tengsl þess við eitt stærsta spillingarmál sem upp hefur komið í Namibíu og þó víðar væri leitað.“

Í fyrsta lagi verður að teljast sérstakt að leiðarahöfundur í útbreiddu blaði ráðist með þessum hætti að fyrirtæki sem ekki hefur ekki verið staðið að þeim lögbrotum sem þarna er vísað til. Vissulega eru mál fyrirtækisins til rannsóknar og verða á endanum til lykta leidd. Fjölmiðlarýnir hefur engar forsendur frekar en aðrir til þess að meta sekt eða sakleysi í þeim efnum, það er í annarra verkahring. Fram að þeim tíma er ekki sérstaklega faglegt af blaðamönnum að fullyrða um sekt í skoðanagreinum.

Í öðru lagi er umhugsunarvert hvernig hugtakið skæruliðadeild er notað í þessu samhengi og reyndar almennt séð í umræðu um þessi Samherjamál. Elín fullyrðir að Samherji hafi sett á laggirnar herdeild skæruliða til að koma óorði á þá sem fyrirtækið skilgreindi sem andstæðinga sína. En er það svo?

Þegar þær afhjúpanir sem Kjarninn og Stundin birtu um málefni Samherja á sínum tíma eru skoðaðar ofan í kjölinn sést glögglega að á vegum Samherja var engin „skæruliðadeild“ rekin og fyrirtækið ekki hvetjandi til þess. Eins og sjá má af fréttaflutningi ofangreindra miðla kom hugtakið „skæruliðadeild“ fyrir í tveggja manna spjalli innanhússlögmanns Samherja og skipstjóra á forritinu Whatsapp því þeim fannst stjórnendur Samherja, stjórnarmenn í fyrirtækinu og utanaðkomandi ráðgjafar ekki gera nóg til að svara gagnrýni á fyrirtækið í fjölmiðlum.

„Skæruliðadeildin“ var með öðrum orðum þröngur hópur fólks, sem vildi grípa til eindregnari varna fyrir Samherja en fyrirtækið sjálft og eigendur þess vildu gera, fannst yfirstjórnin of lin. Á því má hafa sínar skoðanir, en við blasir að fullyrðingar Elínar voru beinlínis rangar, sennilega vegna ókunnugleika á málinu, sem hún hafði samt sem áður sterkar skoðanir á.

Því miður sker Elín Hirst sig ekki sérstaklega úr hvað það varðar, finna má sæg dæma í fjölmiðlum, þar sem þessu er haldið fram án minnsta fyrirvara, og almenning eftirlátið að draga eigin ályktanir um þessa skæruliða Samherja. Má víst þakka fyrir að þar er ekki talað um hryðjuverkamenn eða dauðasveitir Samherja. Það er hins vegar meira en sérstakt að fjölmiðlar almennt virðast hafa lítinn áhuga á að halda þessari staðreynd til haga, sem þó er auðvelt að glöggva sig á enda frumheimildirnar opinberar.

Reyndar virðist sumum fjölmiðlamönnum standa nákvæmlega á sama um hvaða hugtök eru notuð þegar kemur að svokölluðum Samherjamálum. Þannig flutti Margrét Helga Erlingsdóttir, fréttamaður á Stöð 2, fregnir þann 20. september að Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, hefði falið Gunnari Inga Jóhannssyni lögmanni sínum, að óska eftir því að Mannréttindadómstóll Evrópu skæri úr um lögmæti framgöngu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Í fréttinni segir:

Aðalsteinn er einn af fjórum blaðamönnum sem fengu stöðu sakborninga eftir að hafa fjallað um hina svokölluðu „skrímsladeild Samherja“ vegna gruns um að hafa brotið lög um friðhelgi einkalífs.“ 

Þarna er gömlu hugtaki úr smiðju Össurar Skarphéðinssonar, athafnamanns og fyrrverandi ráðherra, ruglað við þessa svokölluðu skæruliðadeild. Þetta vakti litla eftirtekt sem gegnir í sjálfu sér furðu hjá þjóð sem virðist vera jafn umhugað um faglega blaðamennsku og opinberir fjölmiðlastyrkir, blaðamannaverðlaun og siðanefndir, virkar sem óvirkar bera fagurt vitni um. Vafalaust þurfa fjölmiðlaáhugamenn ekki að bíða lengi eftir að hendingum úr ljóði góðskáldsins Einars Más Guðmundssonar um skæruliðana sem umkringdu Vatnaskóg verði blandað inn í málið.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 6. október 2022.