Vinstri vængurinn er eitt allra grátbroslegasta fyrirbæri sem fyrirfinnst í íslensku samfélagi. Sama hvað samfélagspendúllinn hefur sveiflast til vinstri í gegnum tíðina hefur þar jafnan engan slagkraft verið að finna.

Íslenska vinstrið, jafn hávært og leiðinlegt og það er, nær jafnan nokkurs konar samstöðu til skamms tíma en vinstriliðarnir verða svo ringlaðir af því að hoppa á milli popúlistavagna að þeir enda einhvern veginn alltaf í hár saman.

* * *

Þessi tilhneiging kristallast ef til vill best í fjölda smáflokka á vinstri vængnum í dag. Hún birtist einnig í átökum innan verkalýðshreyfingarinnar korter í kjarasamninga, þar sem öll orka fer nú í valdabaráttu einstakra leikmanna með uppblásið egó og sem flestir eiga það sameiginlegt að framboð þeirra er langt umfram eftirspurn.

Þá hefur kastast í kekki meðal sósíalfemínista, hverra hugmyndafræði byggir einnig á marxisma þar sem konan er undiroki feðraveldis og kapítalisma, vegna innbyrðis afstöðu til blætiskynlífs og hvort sigur systranna þriggja á Reykjavíkurdætrum í söngvakeppninni sé sigur feðraveldisins.

Þetta mynstur er gömul saga og ný. Þeir sem eldri eru muna ef til vill eftir því þegar gömlu kommarnir sögðu skilið við Alþýðuflokkinn og gengu í Alþýðubandalagið, þar sem Alþýðuflokkurinn þótti ekki nógu róttækur.

Flokkar þessir runnu svo fyrir rest saman í Samfylkinguna, utan nokkurra bandalagsmenn sem gengu í Vinstri-græna. Vinstrið hefur síðan tvístrast í allar áttir þrátt fyrir að lítill málefnalegur ágreiningur sé milli flestra flokkanna, fjöldi smákónganna er einfaldlega of mikill.

* * *

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hélt því fram á dögunum að Sjálfstæðisflokkurinn væri óstjórntækur vegna tveggja fylkinga á lista flokksins, hverra afstaða klofnar helst til heilsárs göngugötu á Laugavegi.

Það er nokkuð kómískt að slík fullyrðing renni úr ranni Samfylkingarmanns, en flokkurinn hans logaði allur í illdeilum fyrir skemmstu, með þeim afleiðingum að hver kanónan á fætur annarri sagði sig úr flokknum. Líkt og forverarnir hefur Samfylkingin löngum verið óstjórntækasti flokkur landsins og það breytist seint.

* * *

Sagan hefur helst sýnt að einfaldasta pólitíska strategía hægrisins sé að bíða í rólegheitum á meðan vinstrið tortímir sjálfu sér.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .