Fróðlegt hefur verið að fylgjast með skylmingum Iceland Express og Wow air í fjölmiðlum undanfarnar vikur. Eftir að síðarnefnda félagið sakaði það fyrra um að njósna um starfsemi þess boðuðu forsvarsmenn Express til blaðamannafundar. Einhver hefði haldið að sá fundur hefði snúist um að gera lítið úr því sem hafði átt sér stað og reyna að sýna að örverpi íslenska flugbransans væri einfaldlega að sprikla til að halda á sér hita.

Express fór þess í stað þá leið að sýna fjölmiðlum ítarlegar upplýsingar um starfsemi Wow air fyrir júnímánuð. Samkeppnin hefur því tekið á sig nýja mynd því þeir hjá Express eru augljóslega farnir að taka litla bróður ansi alvarlega. Ekki nóg með að þeir haldi úti upplýsingum um fjölda farþega Wow heldur er fylgst samviskusamlega með öllum flugtímum véla Wow og hversu mörgum ferðum Wow slái saman.

Að skella saman nokkrum áfangastöðum, eins og virðist vera venjan þegar flogið er til Þýskalands,  virtist fara mikið fyrir brjóstið á Express. Wow hefur greinilega ákveðið að grípa til sparnaðaraðgerða með því að fljúga til dæmis til Stuttgart, þaðan til Kölnar og aftur heim þegar þannig viðrar í farþegatölunum. En Iceland Express eru nú sjálfir ekki barnanna bestir.

Bæði félögin eiga það til að tilkynna farþegum að brottfarartíma hafi verið breytt með tiltölulega stuttum fyrirvara en tilkynna svo
um að nánast allt flug hafi verið samkvæmt áætlun. Vefsíðan turisti.is heldur samviskusamlega utan um það hvernig félögin standa sig þegar kemur að því að standast brottfarar og komutíma. En tölur um breytingar á flugáætlun eru því miður ekki aðgengilegar. Þannig getur félag sem breytir flugáætlun með nokkura klukkustunda fyrirvara sagt að það sé með 100% stundvísi. Það heitir að vera stundvís en ekki áreiðanlegur. Félögin ættu kannski að velta því fyrir sér hver fórnarkostnaðurinn af slíkum starfsháttum er til lengri tíma. Það gæti jafnvel verið góð viðskiptahugmynd að búa til flugáætlun sem hægt er að standa við.