1. Þorsteinn Már keypti dýrustu íbúð ársins

Í maí fjallaði Viðskiptablaðið um dýrastu íbúð landsins sem selst hafði á árinu. Íbúðin er staðsett í Skuggahverfinu, nánar tiltekið að Vatnsstíg 20-22. Um er að ræða útsýnisíbúð á 13. hæð sem er 137 fermetrar að stærð og kostaði 211 milljónir króna, eða sem nemur rúmlega einni og hálfri milljón króna á hvern fermetra. Kaupandinn var Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri útgerðarfélagsins Samherja, en hann gekk frá kaupunum um miðjan mars.

2. Kaupa 250 milljóna einbýlishús í Vesturbænum

Steinarr Lár Steinarsson, stofnandi KúKú Campers og annar eiganda Go Campers, og Guðrún Magnúsdóttir, eiginkona hans, festu kaup á einbýlishúsi við Starhaga í Vesturbæ Reykjavíkur. Kaupverðið nam 250 milljónum króna samkvæmt þinglýstum kaupsamningi.

3. Dýrustu einbýlishúsin í Garðabæ

Sunnakur 1 var dýrasta einbýlishús sem selt var í Garðabæ árið 2022 en húsið, sem er 451 fermetri að stærð, var selt á 375 milljónir króna í lok árs 2022. Fermetraverð eignarinnar nam því tæplega 831 þúsund krónum. Hjónin Páll Snorrason, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs sjávarútvegsfyrirtækisins Eskju, og Málmfríður Lilly Einarsdóttir fótaaðgerðafræðingur keyptu húsið.

4. Dýrustu einbýlishús landsins

Caroline Leonie Kellen, þýskur ríkisborgari fædd árið 1979, keypti dýrasta einbýlishús sem seldist árið 2022, Fjölnisveg 9, á 690 milljónir króna. Það gerir einbýlishúsið jafnframt það dýrasta sem selst hefur á Íslandi.

5. 179 milljónir fyrir dýrasta einbýli Mosfellsbæjar

Ástu-Sólliljugata 17 var dýrasta einbýlishús sem selt var í Mosfellsbæ árið 2022. Kaupverð hússins, sem er 303 fermetrar, nam 179 milljónum króna. Fermetraverð nam því 590 þúsund krónum.