Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur að undanförnu sett mest púður í að byggja upp rekstur fjarskiptafyrirtækisins WOM í Kólumbíu.

Það er fjórða landið þar sem Novator stofnar fjarskiptafélag en félagið hefur beitt svipuðum aðferðum áður í Póllandi, Íslandi og Chile og í öllum tilfellum náð yfir 20% markaðshlutdeild. Uppskriftin er alltaf áþekk, áberandi og óvenjuleg markaðssetning þar sem lögð er áhersla á að höfða til ungs fólks ásamt því að bjóða lág verð.

Sjá einnig: Björgólfur selur sendistöðvar fyrir 130 milljarða

Í Kólumbíu eru hins vegar þrjú stór fjarskiptafélög sem hafa verið föst fyrir og hafa gripið til ýmissa aðgerða til að hindra innkomu WOM á markaðinn. Þar með talið höfðað fjölda dómsmála og kvartað til stjórnvalda og eftirlitsaðila yfir félaginu. „Það hefur verið mjög erfitt að eiga við félögin þrjú, þau hafa gert okkur verulega erfitt fyrir að komast inn á markaðinn, en ég er ekki að kvarta undan því þar sem það er þeirra hlutverk,“ sagði Björgólfur Thor í viðtali við Forbes á síðasta ári. Björgólfur hefur sagt að Novator muni fjárfesta fyrir milljarð dollara, um 137 milljarða króna, í uppbyggingu WOM í Kólumbíu.

Sjá einnig: Berst við mjólkurkú Carlos Slim

Samkvæmt nýlegri greiningu Fitch hafa tekjur á notanda á kólumbískum fjarskiptamarkaði lækkað um 7% frá innreið WOM á markaðinn í apríl á síðasta ári með kaupum á fjarskiptafélaginu Avantel. Markaðshlutdeild WOM sé enn sem komið er einungis 3% með þeim viðskiptavinum sem fylgdu með í kaupunum á Avantel. Nýir viðskiptavinir hafi einna helst komið til með lágum kjörum WOM og áberandi markaðssetningu. Fitch væntir þess að WOM muni halda áfram á þeirri braut sem muni stuðla að því að verð á fjarskiptaþjónustu í Kólumbíu muni halda áfram að lækka á næstunni.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.