Stofnfiskur hf. var með dómi Héraðsdóms Reykjaness í gær sýknað af kröfu L1076 ehf., sem er hluthafi í félaginu, um að ákvörðun hluthafafundar félagsins yrði felld úr gildi. Umrædd ákvörðun fól í sér að félagið gekkst í tugmilljarða ábyrgð fyrir móðurfélagið og taldi L1076 að með því hefði eignarhlutur félagsins rýrnað.

Um tvær ákvarðanir hluthafafundar, báðar sama eðlis, var að ræða. Sú fyrri var tekin í október 2019 en sú síðari í janúar 2020. Óumdeilt var að sú fyrri hafði ekki verið lögmæt þar sem fulltrúi L1076 hefði ekki verið boðaður á fundinn. Byggði L1076 á því að ekki hefði verið unnt að stoppa í það gat með lögmætri boðun þess síðari.

„Málshöfðun [L1076] í kjölfar fundarins til ógildingar ákvarðana sem þar voru teknar getur hins vegar ekki leitt til þess að [Stofnfiskur] hafi ekki getað boðað til nýs hluthafafundar 29. janúar 2020 og tekið þar ákvarðanir, en engir annmarkar voru á boðun þess fundar og fulltrúi [L1076] sótti fundinn,“ segir í niðurstöðu dómsins. Af þeim sökum stæðu engir hagsmunir til þess að fella úr gildi ákvarðanir fyrri hluthafafundarins og þeirri kröfu hafnað.

Hvað síðari ákvörðunina varðaði taldi L1076 að fella ætti hana úr gildi á grundvelli reglna um minnihlutavernd hluthafa en félagið heldur á rétt rúmlega einum tíunda bréfa í félaginu á meðan aðrir hlutir séu í eigu móðurfélagsins. Lögum samkvæmt telst umrædd ábyrgð ekki gild nema sérfræðiskýrslu hafi verið aflað um að samræmi sé á milli greiðslu félagsins og endurgjaldsins sem fellur í hlut þess. Taldi L1706 að ekkert endurgjald hefði komið í stað ábyrgðarinnar.

Í málinu lá fyrir sérfræðiskýrsla löggilts endurskoðanda og kom sá fyrir dóminn sem vitni. Sagði sá að endurgjaldið hefði verið aðgangur að sölu- og tengslaneti móðurfélagsins og að eðlilegt samræmi væri á milli þess og tugmilljarða ábyrgðarinnar. Að mati dómsins hafði ekkert komið fram sem hnekkti þessu mati skýrslunnar og kröfunni því hafnað.

Málskostnaður milli aðila var felldur niður.