Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir að atburðarásin í kringum lokað útboð Bankasýslunnar á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars 2022 hafi verið mjög óheppileg og ekki til þess fallin að auka tiltrú fólks á fjármálakerfinu, né heldur að auka tiltrú alþjóðlegra fjárfesta á Íslandi.

Hann ræðir Íslandsbankamálið í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark og minnir þar á að upphaflega stóð til að Íslandsbanki færi ekki í hendur ríkisins.

„Eins og þið munið í stöðugleikasamningunum þá átti Glitnir meirihlutann, held ég 95% af eignarhlutnum í Íslandsbanka. Hugmyndin var að Glitnir myndi bara gera nákvæmlega það sama og Kaupþingi var falið, þ.e. sjá um ferlið og borga fyrir það,“ segir Benedikt.

Kostirnir við þetta fyrirkomulag hefðu m.a. verið að Glitnir var með alþjóðlega kröfuhafa, þar á meðal vogunarsjóði, sem höfðu góðan aðgang að bestu fjármálafyrirtækjum heims. Þannig hefði verið hægt að „tromma“ áformað útboð upp og markaðssett það erlendis.

„En það gekk ekki eftir og ég man að það voru ekkert allir við þetta ákvörðunartökuborð hrifnir af því,“ segir Benedikt.

„Einn af þeim var Bjarni Benediktsson sem sagði „á ég síðan að fara í þetta verkefni að selja? Það verður bara erfitt“ sem reyndist síðan rétt. Ég held að engum hafi órað fyrir því hvernig þetta myndi þróast.“

Benedikt segir að ríkið hafi þó eflaust fengið meira úr stöðugleikaframlögunum heldur en ef Glitnir hefði ráðist strax í útboð þar sem afkoma Íslandsbanka undanfarin ár hafi verið ágæt og verðmæti bankans aukist töluvert. „Bankinn er verðlagður á álagi á eigið fé en ekki afslætti.“

Hann var spurður hvort hann sé sammála mati Marinós Arnar Tryggvasonar, fyrrum bankastjóra Kviku banka, að farið hafi verið mjög harkalega um stjórnendur og starfsmenn Íslandsbanka í opinberri umræðu um síðustu lotu söluferlisins.

„Já já, að einhverju leyti en þetta er ábyrgðarmikið hlutverk að taka á sig að selja eignir fyrir ríkið. Það þarf að vera algjörlega skothelt ferli. Ef það er ekki, þá eru aðilar að gefa færi á sér og ekki að rækja sitt hlutverk gagnvart ríkinu og ríkiseignum,“ segir Benedikt.

Engin ástæða fyrir ríkið að standa í bankarekstri

Hann fagnar því að söluferlið á Íslandsbanka sé að fara aftur af stað og telur að lagafrumvarp fjármálaráðherra geti búið til að góðan farveg fyrir áframhaldandi sölu á hlut ríkisins í bankanum. „Við getum sýnt fram á að það sé hægt að gera þetta vel.“

Hann vitnar í kveðjuávarp Brynjólfs Bjarnasonar, sem gegndi stjórnarformennsku hjá Arion undanfarin fimm ár, þar sem bent var á hvað ríkið væri stór eigandi á íslenskum fjármálamarkaði.

„Það er ekkert land í Evrópu sem er með jafn mikið eignarhald ríkisins í þessari starfsemi,“ segir Benedikt.

„Ég held að það svari þá þeirri spurningu að það er ekki góð hugmynd að ríkið sé alltumlykjandi. Það er einhver ástæða fyrir því að öll lönd í kringum okkur eru ekki að sækjast eftir því að eiga fjármálafyrirtæki. Við erum búin að búa þannig um hnútana að við erum búin að endurreisa hérna mjög öflugt og sterkt fjármálakerfi með góðan aðgang að innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Það er engin ástæða fyrir ríkið að standa í þessum rekstri.“

Birting kaupendalista óvanaleg en skilur nálgunina

Í umsögn Arion banka um frumvarpsdrög fjármálaráðherra um næstu skref í Íslandsbankasölunni er varað við að áform um að birta lista yfir alla kaupendur í fyrirhuguðu almennu hlutafjárútboði kunni að draga úr áhuga almennings á þátttöku. Jafnframt bæti slík birting litlu við áformaða úttekt óháðs aðila að loknu útboðinu.

Spurður um þetta, segir Benedikt að það sé ekki vanalegt að birta upplýsingar um alla þátttakendur og fjárfestar séu því ekki vanir slíkri birtingu.

„Hins vegar má segja það að þetta er eflaust leið þess að vinna með það álit sem kom frá Umboðsmanni Alþingis varðandi ráðherraábyrgðina í söluferlinu að það beri að yfirfara allan kaupendalistann.

Þá er auðvitað hægt að benda á það að hluthafalisti Íslandsbanka er aðgengilegur öllum, a.m.k. öllum hluthöfum, auðvelt að sækja hann fyrir og eftir sölu og bera saman og búa til þennan lista úr frá opinberum gögnum. Út frá því skilur maður þessa nálgun, en þetta er óvanalegt.“

Benedikt ræðir um söluferlið á Íslandsbanka frá 22:35-30:50.