Tæknibrellufyrirtækið DNEG mun samþykkt að fara á markað í Bandaríkjunum með öfugum samruna við sérhæft yfirtökufélag (SPAC). Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, mun taka þátt í beinni 168 milljóna dala hlutafjáraukningu (PIPE fjármögnun) samhliða samrunanum, samkvæmt tilkynningu DNEG.

Einungis örfáir mánuðir eru síðan að Novator fjárfesti 250 milljónum dala, eða um 32,5 milljörðum króna, í Prime Focus samstæðunni og eignaðist þar með 15% hlut í dótturfélaginu DNEG.

SPAC-samruni DNEG verður sá annar sem Novator tekur þátt í en fjárfestingafélagið fer fyrir sérhæfða yfirtökufélaginu Aurora Acquistion sem mun sameinast bandaríska húsnæðislánafyrirtækinu Better Mortgage. Forstjóri Better vakti athygli fjölmiðla víða um heim í desember þegar hann sagði upp 900 starfsmönnum á Zoom-fundi og gagnrýndi þá um leið fyrir leti. Þá er Björgólfur Thor einnig stjórnarformaður Itiquira Acquisition Corp sem hyggst fjárfesta í brasilískum fyrirtækjum.

Sjá einnig: SPAC félag Björgólfs stendur með Garg

Til stendur að DNEG sameinist SPAC-félaginu Sports Ventures Acquisition Corp. Í tilkynningu DNEG segir að heildarvirði sameiginlegs félag verði metið á 1,7 milljarða dala. Ef gert er ráð fyrir engum innlausnum mun DNEG fá 230 milljónir dala með innspýtingu reiðufjár úr sjóðum Sports Ventures. Með framangreindri PIPE fjármögnun mun DNEG því fá um 400 milljónir dala við samrunann.

Sjá einnig: Fjárfestir 31 milljarði í Óskarshafa

Teymi á vegum DNEG hafa unnið til sex Óskarsverðlauna fyrir tæknibrellur, síðast fyrir kvikmyndina Tenet. DNEG hlaut einnig Óskarinn fyrir myndirnar Inception, Interstellar, Ex Machina, Blade Runner 2049 og First Man. Fyrirtækið sá einnig um tæknibrellur fyrir nýjustu James Bond myndina No Time to Die. DNEG er einnig í teiknimyndagerð og hyggst færa sig út í tölvuleikjabransann.

DNEG gerir ráð fyrir að tekjur á fjárhagsárinu sem lýkur 31. mars næstkomandi nemi 400 milljónum dala, eða um 52 milljarða króna, og aðlöguð EBITDA verði um 100 milljónir dala.

Haft er eftir Namit Malhotra, forstjóra DNEG, í grein WSJ að hann hafi aldrei upplifað eftirspurn aukast jafnmikið og nú auk þess sem kröfur um gæði og stærð verkefna hafa aukist hratt. Malhotra fer með um 70% hlut í móðurfélaginu Prime Focus.

WSJ bendir jafnframt á að hugbúnaðarfyrirtækið Unity Software, sem Davíð Helgason stofnaði og situr í stjórn hjá, hafi í lok síðasta árs samþykkt að greiða um 1,6 milljarða dala fyrir stóran hluta af starfsemi tæknibrellufyrirtækisins WETA Digital.