*

sunnudagur, 9. ágúst 2020
Innlent 5. desember 2019 14:46

„Enginn fótur er fyrir ásökunum“

Forstjóri Samherja sendi starfsmönnum bréf þar sem segir ekki fót vera fyrir stórum hluta ásakana á félagið.

Ritstjórn
Björgólfur Jóhannsson hefur tekið við stjórn Samherja eftir að Þorsteinn Már Baldvinsson aðaleigandi fyrirtækisins steig til hliðar.
Haraldur Guðjónsson

Björgólfur Jóhannsson starfandi forstjóri Samherji hefur sent bréf á fjölmiðla sem titlað er sem bréf til starfsmanna. Þar ávarpar hann starfsfólk félagsins og segir þá geta staðið af sér það sem hann kallar víðtæka árás á félagið sem hafi verið í fjölmiðlum undanfarið, líkt og þeir hafi gert í Seðlabankamálinu eins og hann kallar það, sameinaðir.

Segir hann málið nú enn erfiðara en það mál en biður starfsfólkið um skilning því það muni taka tíma, en í fjölmiðlum hafi hingað til einungis verið sagt frá annarri hlið þeirra í fjölmiðlum.

Viðskiptablaðið hefur áður sagt frá viðbrögðum Samherja við ásökunum um mútur í Namibíu sem fram komu í Kveik þætti RÚV. Þar á meðal í morgun hugmyndir um að til greina komi að birta tölvupósta Jóhannesar Sveinssonar, sem félagið hafði tekið saman að vantaði í árabilið sem hann hafði komið á té við WikiLeaks.

Í bréfinu er það að 58% tölvupósta þessa tímabils vanti sagt umhugsunarefni fyrir þá „sem telja að frásögn Jóhannesar Stefánssonar sé rétt og sannleikanum samkvæm.“

Áður hefur Samherji sagt RÚV vera með uppspuna í málinu, en þar fór félagið sérstaklega í þann punkt að yfirtaka félagsins á kvóta uppsjávartegunda hefði ekki haft áhrif á landvinnslu í landinu líkt og Helgi Seljan fréttamaður hafi haldið fram með vísun í þarlendar fréttir.

Jafnframt sagði blaðið frá því að Þorsteinn Már Baldvinsson hefði, í kjölfar þess að hann sagði tímabundið af sér sem forstjóri félagsins þegar Björgólfur steig inn, einnig hætt í stjórnum 14 breskra félaga í eigu Samherja.

Hér má sjá bréfið í heild sinni sem Björgólfur skrifar undir sem starfandi forstjóri:

Það gerist ekki á hverjum degi að sótt sé að fyrirtækinu af þeirri hörku sem við höfum séð í fjölmiðlum síðustu vikur. Samherji reyndi að bregðast við ásökunum á ábyrgan hátt. Birtingarmyndir þess voru tvíþættar. Annars vegar steig Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri tímabundið til hliðar og hins vegar réð stjórn Samherja norsku lögmannsstofuna Wikborg Rein til að rannsaka málið.

Nú þegar sjáum við að stór hluti þeirra ásakana sem settar hafa verið fram á hendur Samherja á ekki við rök að styðjast. Á dögunum leiðréttum við rangar fréttir Ríkisútvarpsins og Stundarinnar um félagið Cape Cod FS. Eins og fram kom í tilkynningu á heimasíðu Samherja var Cape Cod FS aldrei í eigu Samherja eða tengdra félaga heldur var það í eigu starfsmannaleigunnar JPC Shipmanagement sem Samherji átti í viðskiptum við til að manna áhafnir á skipum í namibísku efnahagslögsögunni. Sú staðreynd að Samherji átti aldrei félagið Cape Cod FS þýðir í reynd að enginn fótur er fyrir ásökunum um peningaþvætti sem settar hafa verið fram vegna greiðslna til félagsins. Lögmenn Samherja hafa fundað með bæði skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara og hafa afhent embættunum öll gögn um þetta. Þá funduðu lögmenn frá Wikborg Rein einnig með héraðssaksóknara og hafa verið í samskiptum við norsku efnahagsbrotadeildina Økokrim í Osló.

Birtir hafa verið 18.497 tölvupóstar úr pósthólfi Jóhannesar Stefánssonar frá árunum 2014-2016. Í ljós hefur komið að Jóhannes hefur ekki afhent nema 42% af tölvupóstum frá umræddu tímabili því í pósthólfi hans voru 44.028 tölvupóstar frá árunum 2014-2016. Það vekur ýmsar spurningar. Hvert var efni þeirra pósta sem ekki voru birtir? Hvers vegna voru þau tímabil sem um ræðir valin en ekki allt tímabilið? Sú staðreynd að 58% af tölvupóstunum voru aldrei birt hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir þá sem telja að frásögn Jóhannesar Stefánssonar sé rétt og sannleikanum samkvæm.

Samherji er um þessar mundir að greina fleiri ásakanir á hendur félaginu en þær sem nefndar eru hér framar. Margar þeirra eru mjög alvarlegar en enn sem komið er hefur aðeins verið sagt frá annarri hlið þeirra í fjölmiðlum. Það er erfitt fyrir félagið og starfsmenn að sitja þegjandi undir þessu. Þið getið treyst því að við munum svara öllum þessum ásökunum. Ég bið ykkur hins vegar um skilning því þetta mun taka tíma.

Þessi víðtæka árás á félagið, sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur, hefur verið enn erfiðari viðfangs en sú sem við glímdum við í Seðlabankamálinu. Við vitum hins vegar að sameinuð munum við standa þetta af okkur. Ég vil að þið vitið að stjórnendur Samherja eru óendanlega þakklátir fyrir ykkar framlag til fyrirtækisins. Án ykkar væri félagið ekki leiðandi í evrópskum sjávarútvegi. Við ætlum að gera allt sem við getum til að tryggja að svo verði áfram.