Bæði stéttarfélög flugmanna, FÍA, og flugliða og flugfreyja, FFÍ, hjá Icelandair hafa hafnað tilboði sem Icelandair hefur sett fram um kjör starfsmanna flugáhafna sinna að því er Fréttablaðið , Vísir og Morgunblaðið hafa greint frá.

Hyggst Félag íslenskra atvinnuflugmanna ekki leggja tilboð Icelandair, fyrir flugmenn sína, þó flugfélagið segi það rúmast innan þeirra 25% hagræðingar sem stéttarfélagið sagði að flugmenn væru tilbúnir að taka á sig vegna ástandsins.

Jón Þór Þorvaldsson formaður FÍA segir þó viðbúið að Icelandair muni senda tilboðið á flugmenn sína en hann brýnir félagsmenn um að taka samantekt flugfélagsins með fyrirvara. Flugfreyjufélag Íslands mun hins vegar kynna tilboð Icelandair fyrir félagsmönnum í dag að ósk flugfélagsins, en samninganefnd félagsins hefur hafnað tilboðinu.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir starfandi formaður Flugfreyjufélagsins segir félagsmenn vera ósátta við tilboðið sem kom í fyrradag til félagsmanna en FFÍ hafi lagt fram tilboð um miðjan apríl sem hafi þegar falið í sér verulegar tilslakanir, aukinn sveigjanleika og lengri vinnutíma.

Eins og fjallað hefur ítarlega um í fréttum róa fjölmörg flugfélög nú lífróður vegna áhrifa útbreiðslu kórónuveirunnar á ferðatilhögun fólks, þar á meðal Icelandair sem nú flýgur eingöngu með farþega samkvæmt samningi um ákveðnar ferðir við stjórnvöld.

Hyggst Icelandair nú freista þess að ná langtímakjarasamningum við flugáhafnir sínar enda nýr kjarasamningur forsenda tæplega 30 milljarða króna hlutafjárútboðs sem félagið stefnir á til að komast yfir ástandið.

Fá ekki lengur kaupauka miðað við eldneytissparnað

Tilboð Icelandair til flugmanna sinna er til fimm ára, er sagt fela í sér engar launahækkanir fyrstu tvö árin, en síðan um 2,5 til 3,5% hækkanir á árunum 2023 til 2025. Jafnframt yrðu orlofsdögum flugmanna fækkað um allt að fimm, ásamt því að tryggja að orlofið félli síður á háannatíma.

Þannig munu flugmenn geta gengið að einu helgarfríi í mánuði vísu í stað eins og hálfs og tveggja þriðja hvern mánuð. Loks myndi eitt langt flug til Evrópu bætast við vinnustundir flugmanna á mánuði með breyttri vakta- og hvíldartímareglu.

Auk þess verði innleitt nýtt kaupaukakerfi sem gefi þeim hlutdeild í rekstrarhagnaði Icelandair en í dag byggir það meðal annars á eldsneytissparnaði. Jón Þór Þorvarðsson formaður FÍA

Geta fengið 200 þúsund króna eingreiðslu

Í tillögum Icelandair er farið fram á 18 til 35% launaskerðingu flugfreyja og flugþjóna félagsins að því er segir í athugasemdum FFÍ,, en samkvæmt tillögunum yrði í fyrsta lagi launahækkun hjá félagsmönnum í október 2023, en kjarasamningurinn gilda til loka árs 2025.

Jafnframt muni félagið hafa heimild til þess ef ekki verður hagnaður af árinu 2023 að opna samningana upp á nýtt. FFÍ gerir þá ráð fyrir 13% kaupmáttarrýrnun samkvæmt samningnum ef gert er ráð fyrir 2,5% verðbólgu.

Jafnframt myndi vakta- og hvíldartími flugfreyja og flugþjóna breytast, til að mynda úr einu og hálfu helgarfríi í mánuði í eitt. Hins vegar munu flugfreyjur geta fengið 202 þúsund króna eingreiðslu ef af hlutafjárútboði félagsins verði.

Eins og fjallað var um í fréttum telur ráðgjafi hluthafa Icelandair að flugáhafnir verði að taka á sig allt að 60% kjaraskerðingu til að forða félaginu frá gjaldþroti.

Hinn möguleikinn væri að setja félagið í þrot og nýtt verði endurreist á annarri kennitölu sem geti þá samið við flugáhafnir á nýjum grunni og án skuldbindandi atriða sem virðast gera flugmenn félagsins um 30% dýrari en flugmenn gamla Wow.