*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 26. ágúst 2019 13:59

Flytja kannski Max vélarnar úr landi

Icelandair þyrfti leyfi flugmálayfirvalda til að flytja vélarnar í betri veðurskilyrði yfir vetrarmánuðina.

Ritstjórn
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair.
Eva Björk Ægisdóttir

Icelandair skoðar að flytja Boeing 737 Max vélarnar sem verið hafa kyrrsettar á Keflavíkurflugvelli frá því í mars síðastliðnum úr landi að því er Fréttablaðið greinir frá. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um gerir félagið ekki lengur ráð fyrir því að geta nýtt vélarnar í áætlunarflugi sínu á þessu ári.

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir að í haust og yfir veturinn sé Ísland ekki besti staðurinn til að geyma vélarnar. „Þetta er í skoðun og er búið að vera á teikniborðinu í talsverðan tíma. Það hefur ekkert verið að gerast í ferlinu í heild sinni sem hefur einhver áhrif á þetta,“ segir Bogi Nils.

Hann segir ekki heldur neitt liggja fyrir um hvert þær yrðu fluttar, þó það væri staður með betri veðurfarslegar aðstæður til að geyma vélarnar en eru á Íslandi. Fyrst þyrfti Icelandair þó að fá samþykki flugmálayfirvalda til að ferja þær ef af yrði. „Ákvörðun um þetta mun væntanlega liggja fyrir fljótlega.“