Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, flutti frumvarp á Alþingi nýverið um niðurfellingu ofurtolla á snakki. Þá hafði áður legið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd tillaga að niðurfellingunni, en tollarnir nema 59% á innflutt snakk úr niðursneiddum kartöflum.

Þrátt fyrir að samkvæmt útreikningum myndi niðurfelling tollanna skila neytendum í kringum 160 milljónum króna árlega hefur tillagan mætt einhverri andstöðu - en þó aðeins frá innlendum framleiðendum kartöflusnakks. Tillögu nefndarinnar var því frestað til ókomins tíma, en Sigríður tók málið upp á eigin spýtur.

Andstaða framleiðenda orsakaði hik

Tillagan átti að taka gildi 1. janúar en í kjölfar harðra viðbragða hagsmunaaðila hikaði nefndin í ákvörðunum sínum og bar fyrir sig að skoða yrði aðra tollflokka, og þar eftir götum.

„Ég hélt breytingartillögunni til streitu, en með þeirri breytingu að hún tæki gildi 1. júlí,” segir Sigríður. „Þetta gerði ég til þess að koma til móts við þessi hagsmunasjónarmið - sem ég tel þó ekki vera sjónarmið í þessarri umræðu. Það er ívilnandi fyrir allan almenning að afnema þennan ofurtoll.”

Þrátt fyrir þessar móttillögur Sigríðar var nefndinni órótt að einhverju leyti. Að sögn Sigríðar gætti samræmis í skoðunum manna um ágæti þess að leggja niður ofurtollinn, en vegna fyrrnefndra óþæginda hafi hún lagt til að niðurfellingunni yrði frestað til 2017:

„Menn voru þá almennt sammála efninu, þeir voru sem betur fer búnir að sjá ljósið í málinu. Þetta var 59% tollur, sem er bara ofurtollur. Nefndin var sammála því að leggja þetta niður. Þá komu fram tæknileg atriði sem menn treystu sér ekki til að standa fyrir,” segir Sigríður.

„Þegar ég tók þetta svo upp til frumvarps var ljóst að einhverjir vildu vera með en fannst það eitthvað óþægilegt. Þá gerði ég það að tillögu minni að þessu yrði frestað til janúar 2017, um heilt ár. Þetta ár myndum við þá nota til að líta á fleiri vöruflokka á þessu sviði.”

Það er neytenda að ráða vöruframboði

Að lokum segir Sigríður ómögulegt að tollvernd geti varað til eilífðar, og ótækt að framleiðendur eða stjórnmálamenn ráði því hvaða vörur eru á markaði eður ei - það sé hlutverk neytenda:

„Menn sem hafa búið við svona tollvernd, þeir geta ekki búist við því að hún verði til eilífðar, segir Sigríður. „Við þurfum að nota tímann til að taka til í þessum tollum með það að markmiði að fella þá allflesta niður. Neytendur eiga að ákveða hvað er á markaðnum en ekki einstakir framleiðendur.”

Félag Atvinnurekenda og framleiðendur deila um tollinn

Félag Atvinnurekenda hefur gagnrýnt tollana sérstaklega, og segja þá ekki vera til verndar landbúnaðar heldur til verndar mjög takmarkaðs iðnaðar, atvinnugreinar sem telur rúmlega 20 manns. Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um málið áður.

Þá tjáði Iðnmark, eitt tveggja snakkframleiðslufyrirtækja á Íslandi, sig um málið, en einnig fjallaði Viðskiptablaðið um það .