*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 23. apríl 2018 12:55

Hafna kröfu Eimskips á FME

Héraðsdómur hefur hafnað kröfum Eimskipafélagsins um að ógilda eða lækka 50 milljóna stjórnvaldssekt á félagið.

Ritstjórn
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipafélags Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Öllum kröfum Eimskipafélags Íslands hf. gegn Fjármálaeftirlitinu vegna ákvörðun stofnunarinnar um að leggja stjórnvaldssekt á félagið hefur verið hafnað í héraðsdómi. Fór Eimskip fram á að 50 milljóna króna stjórnvaldsekt sem lögð var á félagið vegna brota á lögum um verðbréfaviðskipti yrði ógild eða sektarupphæðin lækkuð.

Að mati FME fólst brotið í því að Eimskip birti ekki innherjaupplýsingar, sem lágu fyrir þann 20. maí 2016, um mikið bætta rekstrarafkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi 2016, eins fljótt og auðið var og á jafnræðisgrundvelli eða frestaði birtingu innherjaupplýsinganna.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma féllst Eimskip ekki á lögskýringu FME og sagði að ef hún væri rétt væri skráðum félögum í raun ómögulegt að undirbúa fjárhagsuppgjör eðlilega. Þess í stað þyrfti félagið ávalt að tilkynna eftirlitinu um frestun á birtingu upplýsinga um leið og undirbúningsvinna uppgjörs hæfist.

Á vef Fjármálaeftirlitsins segir að enn liggi ekki fyrir hvort áfrýjað verði til Hæstaréttar.