Hlutfall yfirvinnu í heildarlaunum var mjög mismikil eftir starfsstéttum, allt frá því að vera 90% heildarlauna yfir í að vera undir 50% þeirra, en þetta kemur fram í samantekt Hagstofunnar .

Þegar fréttir Viðskiptablaðsins af heildarlaunum og launadreifingu sést að heildarlaunin eru mikið til lægst í stéttum sem ekki njóta yfirvinnu eins og gefur að skilja.

Grunnlaun allt undir 50% af heildarlaunum

Hjá leik- og grunnskólakennurum og í sérhæfðum störfum tengd sölu og ráðgjöf voru heildarlaunin að 90 af hundraði byggð á grunnlaunum.

Fór það niður í að grunnlaun væru undir 50% heildarlauna þeirra sem störfuðu sem stjórnendur krana og lyftitækja, bílstjóra vöru- og flutningabíla auk lögreglumanna.

Álags- og bónusgreiðslur vega þungt

Þær greiðslur sem komu til viðbótar grunnlaunum voru ýmsar reglulegar greiðslur sem gerðar eru upp mánaðarlega, svo sem vaktaálag og álags- og bónusgreiðslur. Voru þær tæplega 22% heildarlauna stjórnenda krana og lyftitækja, 19% heildarlauna lögreglumanna og 16% heildarlauna bílstjóra vöru- og flutningabíla.

Hins vegar voru þessar greiðslur hverfandi hjá kennarastéttunum tveimur og rétt rúmlega 3% heildarlauna þeirra sem sinna sérhæfðum störfum tengdum sölu og ráðgjöf.

Tilfallandi yfirvinna allt að fjórðungur

Einnig vóg tilfallandi yfirvinna þungt, en rúmlega 25% heildarlauna bístjóra vöru- og flutningabíla komu vegna yfirvinnu, sama hlutfall var 22% hjá stjórnendum krana og lyftitækja og rúmlega 17% hjá lögreglumönnum.

Á hinn bóginn var einungis 6% heildarlauna hjá grunnskólakennurum vegna yfirvinnu, en hjá leikskólakennurum og í áðurnefndum störfum í sölu og ráðgjöf nam hún einungis 1%.

Óreglulegar greiðslur vega þungt hjá lögreglunni

Óreglulegar greiðslur eins og orlofs- og persónuuppbót og aðrar óreglulegar greiðslur af ýmsu tagi vógu einnig mjög misþungt, en þær voru tæpar 15% heildarlauna lögreglumanna.

Hjá öðrum hópum var vægi þessara greiðslna á bilinu 5-10%, lægst hjá grunnskólakennurum og hæst hjá stjórnendum vöru- og flutningabíla.