*

mánudagur, 11. nóvember 2019
Innlent 22. ágúst 2017 08:49

Kynna Tempo fyrir fjárfestum erlendis

Stjórnendur Nýherja og dótturfélagsins Tempo hafa verið á ferð í Bretlandi og Bandaríkjunum að kynna félagið, sem þeir vilja þó ekki selja í heild sinni.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, segir að ljúka þurfi ákveðnum áföngum áður en tekin verði ákvörðun um hvort selja eigi dótturfélagið Tempo. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í sumar hefur félagið verið að gera uppfærslur á hugbúnaðarlausnum sínum sem hlotið hafa misgóðar viðtökur, en stjórnendur félagsins segja breytingarnar gefa mikil vaxtartækifæri.

Stjórnendur Nýherja hafa undanfarið verið að kynna rekstur Tempo fyrir erlendum fjárfestum að því er Fréttablaðið greinir frá. Þetta staðfestir Finnur sem segir stjórnendur Nýherja og Tempo hafa fundað með fjárfestum á ráðstefnum í Lundúnum og San Fransisco. Segir hann þá hafa sýnt félaginu töluverðan áhuga.

„Við höfum horft til þess að fá til liðs við okkur samstarfsaðila sem hefur reynslu og þekkingu á alþjóðlegri hugbúnaðarstarfsemi sem myndi nýtast til að styðja enn betur við þann vöxt og uppbyggingu Tempo sem fram undan er,“ segir Finnur, sem tekur þó fram að það sé stjórn sem muni taka ákvörðunina á endanum.

„Ef af yrði, þá kemur til greina að selja meirihluta í félaginu, en líklega ekki félagið í heild sinni. Við höfum mikinn hug á að vera áfram þátttakendur í þeirri frábæru vegferð sem Tempo er á.“

Fyrir helgi fjallaði Viðskiptablaðið um árshlutauppgjör fyrirtækisins en hagnaður Nýherja jókst á öðrum ársfjórðungi á sama tíma og tekjur félagsins drógust saman.