Icelandair fær í heildina 55,3 milljónir dala, eða andvirði rúmlega 7 milljarða króna fyrir sölu á 75% í hótelum sínum eftir að gengið hefur nú verið frá öllum skilyrðum vegna kaupanna.

Icelandair hefur þar með gengið frá lokagreiðslu vegna kaupa Berjaya Land Berhad hótelkeðjunnar á 75% hlut í hótelum flugfélagsins. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma í tengslum við að hótelið sem nú rís á Landsímareitnum fylgir ekki með í kaupunum, þá gerðu samningar aðilanna ráð fyrir að endanlegt kaupverð myndi ráðast af stöðu nettó veltufjármnua og vaxtaberandi skulda á afhendingardegi.

Berjaya hefur þegar greitt Icelandair Group 1,9 milljarða, eða 15 milljónir Bandaríkjadala. Eftirstöðvar kaupverðsins nema því um 5,1 milljarði króna, eða 40,3 milljónum Bandaríkjadala.

Icelandair Group og Berjaya hafa nú komist að samkomulagi um að Berjaya greiði um helming eftirstöðvanna föstudaginn 28. febrúar næstkomandi eða rúmlega 2,5 milljarða króna, það er 20 milljónir Bandaríkjadala og að lokagreiðslan, rúmir 2,6 milljarðar króna, eða 20,3 milljónir Bandaríkjadala, verði greidd 31. maí 2020, þremur mánuðum seinna en upphaflega var áætlað. Þá hefur Berjaya samþykkt að greiða 6% ársvexti af eftirstöðvum kaupverðs þann 28. febrúar.

Afhending á bréfum Icelandair Hotels fer fram samhliða lokagreiðslu í lok maí. Komi til þess að eftirstöðvarnar verði ekki greiddar er samkomulag um vanefndagreiðslu að fjárhæð rúmlega 2,5 milljarðar króna (20 milljónir Bandaríkjadala) af hálfu kaupanda af því sem þegar hefur verið greitt og getur Icelandair Group þá rift kaupunum.

Hér má lesa frekari fréttir um umsvif á Miðbakka og söluna á Icelandair hótelum: