Úrvalsvísitalan hækkaði um nærri tvo prósent í 4,5 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag.

Mesta veltan eða um einn milljarður króna var með hlutabréf Marels en 540 milljóna króna viðskipti fóru í gegn rétt fyrir þrjúleytið. Gengi Marels stendur í 552 krónum eftir 3,4% hækkun í dag og hefur ekki verið hærra síðan um miðjan september síðastliðinn.

Auk Marels hækkuðu hlutabréf Skeljar, Sjóvá, Símans og Kviku um meira en 2% á aðalmarkaðnum í dag.

Á First North-markaðnum hækkaði gengi Amaroq Minerals um 9% í hundrað milljóna króna veltu en auðlindafélagið sendi frá sér tilkynningu um niðurstöður rannsóknar í morgun. Gengi Play og Hampiðjunnar hækkaði einnig um meira en 2%.