*

laugardagur, 14. desember 2019
Innlent 15. júlí 2019 16:55

Reitir eina félagið sem lækkaði

Kvika og Icelandair hækkuðu í kjölfar frétta helgarinnar í kauphöllinni í dag, og krónan styrktist.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,32%, upp í 2.041,66 stig, í tæplega 857 milljóna króna heildarviðskiptum í kauphöllinni í dag.

Mesta hækkunin var á gengi bréfa Kviku, eða um 3,40%, í 52 milljóna króna viðskiptum, og endaði hlutabréfaverð félagsins í 10,65 krónum. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær var afkoma Kviku umfram væntingar sem gæti skýrt hækkunina.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Origo, eða 2,0%, í þó mjög litlum viðskiptum en þriðja mesta hækkunin var á gengi bréfa Icelandair Group, eða um 1,95% í 135% viðskiptum.

Um helgina bárust fréttir um að félagið hefði náð samkomulagi um sölu á 75% hlut í hótelkeðju félagsins, en eins og sagt var frá fyrr í dag ná þau kaup þó ekki til væntanlegs hótels á Landsímareitnum í miðborginni.

Eina félagið sem lækkaði í viðskiptum dagsins var Reitir, en bréf þess lækkuðu um 0,12% í 76 milljóna króna viðskiptum og enduðu bréfin í 84,50 krónum.

Gengi íslensku krónunnar styrktist jafnframt í viðskiptum dagsins gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum landsins nema gagnvart sænsku krónunni sem styrktist um 0,09% og fæst hún nú á 13,409 íslenskar krónur. Mest var styrkingin gagnvart breska pundinu, sem veiktist um 0,47% gagnvart íslensku krónunni og fæst hún nú á 157,06 krónur.