Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, mættu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í síðustu viku. Þar ræddu þeir m.a. íslenska lífeyriskerfið og komu inn á ýmsar vangaveltur um hvernig þeir telji að bæta megi kerfið. Ásgeir kom einnig inn á þátttöku lífeyrissjóða á húsnæðismarkaði. Hann telur ómögulegt að byggja upp stöðugt lánakerfi án aðkomu sjóðanna en það sé ekki að öllu leyti heppilegt að þeir séu sjálfir að lána út. Heppilegra sé að sjóðirnir láti aðra aðila um það.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, kveðst ekki skilja af hverju Ásgeir vilji lífeyrissjóði af íbúðalánamarkaði. Sú skoðun sé þvert á það sem komi fram í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem unnin var af starfshópi á vegum stjórnvalda og gefin út árið 2018.

„Þar eru sjóðirnir sagðir hafa jákvæð áhrif á samkeppni og veiti bönkunum sterkt samkeppnisaðhald. Í Hvítbókinni er í raun lagt til að sú leið verði skoðuð að bein íbúðalán lífeyrissjóða standi öllum landsmönnum til boða, ekki bara sjóðfélögum tiltekinna sjóða. Að auki verði dregið úr sérstökum sköttum á fjármálafyrirtæki og þar með mögulegum aðstöðumun í samkeppni.“