Tap Icelandair reyndist vera 90,8 milljón dollarar, 12,3 milljarðar króna, á öðrum ársfjórðungi en rekstrartap (EBIT) félagsins nam 105,1 milljón dollara, 14,2 milljarðar króna, og því í samræmi við spár. Eiginfjárhlutfall félagsins er 11% í lok annars ársfjórðungs og nemur eigið fé félagsins 118,4 milljónum dollara, 151,2 milljörðum króna. Frá þessu er greint í uppgjöri annars ársfjórðungs en félagið birti bráðabirgðauppgjör síðasta miðvikudag.

Einskiptakostnaður vegna heimsfaraldursins nam 43,8 milljónum dollara, 5,9 milljörðum króna, á öðrum ársfjórðungi og því 224,8 milljónum dollara, 30,3 milljörðum króna, á fyrst sex mánuðum ársins. Rekstrarhagnaður á fyrra hluta árs nemur því 313 milljónum dollara, 42,3 milljörðum króna, en tap félagsins 331 milljón dollara, 44,7 milljarðar króna.

Sjá einnig: 14 milljarða rekstrartap Icelandair

Eigið fé félagsins nam 431 milljón dollara á sama tíma í fyrra, en nú 118,4 milljónum, og hefur því dregist saman um 73%. Eignir félagsins nema nú tæplega 1,1 milljarði dollara, um 146 milljarðar króna og vaxtaberandi skuldir 263 milljónir dollara, 35,6 milljarðar króna.

Framboð í farþegaflugi dróst saman um 97% á fjórðungnum og farþegum fækkaði um 98%. Flugtímar í fraktflugi tvöfölduðust á fjórðungnum.

Eins og fram hafði komið í bráðabirgðauppgjöri félagsins nemur lausafjárstaða félagsins 153,6 milljónum dollara, 21,3 milljarður króna, en viðmið félagsins er 200 milljónir dollarar. Í uppgjörinu kom fram að rekstrartap þess væri á bilinu 100-110 milljónir dollara.

Bogi Nils Bogason: „Eins og í flugheiminum öllum, hafði COVID-19 heimsfaraldurinn gríðarleg áhrif á rekstrarniðurstöðu annars ársfjórðungs hjá Icelandair Group. Þrátt fyrir að flug hafi legið nánast alveg niðri, eða einungis þrjú prósent flugáætlunar okkar verið starfrækt, lögðum við höfuðáherslu á að tryggja lágmarksflugsamgöngur til og frá landinu fyrir farþega og frakt, bæði til Evrópu og Norður Ameríku.

Tekjur drógust saman um 85% á milli ára en með útsjónarsemi og sveigjanleika starfsfólks þvert á fyrirtækið náðum við að grípa þau tækifæri sem gáfust og tvöfalda flugtíma í fraktflugi á milli ára og auka tekjur frá fraktflutningum og leiguflugi.

Við þurftum að grípa til erfiðra en nauðsynlegra aðgerða í fjórðungnum til að draga úr kostnaði og útflæði fjármagns sem meðal annars fólu í sér verulegar uppsagnir og breytingar á skipulagi félagsins. Vinna við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins hefur staðið yfir undanfarnar vikur og stefnum við að því að ljúka samkomulagi við helstu hagaðila fyrir lok júlímánaðar og hefja hlutafjárútboð í ágúst,“ segir Bogi meðal annars í fréttatilkynningu félagsins.