*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 3. september 2019 11:24

Þórdís Lóa: „Því miður ekki hissa“

Oddviti Viðreisnar segir 1,4 milljarða umframkeyrslu Sorpu og mistök í fjármálaáætlun ekki eiga að geta gerst.

Ritstjórn
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er oddviti Viðreisnar og formaður borgarráðs.
Haraldur Guðjónsson

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar, sem gekk til liðs við meirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna eftir fráhvarf Bjartrar framtíðar eftir síðustu kosningar segir ekki hægt að sópa mistökum Sorpu undir teppið að því er Vísir greinir frá.

Eins og sagt var frá í Viðskiptablaðinu í gær fóru tvö verkefni félagsins, á Gufunesi og Álfsnesi samtals tæplega 1,4 milljarða fram úr áætlunum, þó í öðru tilvikun var það handvömm að kostnaður var ekki færður milli ára.

Þórdís Lóa segir mistök geta gerst en staldra þurfi við og leita skýringa. „Svona lagað á ekki að geta gerst en ég er því miður ekki hissa,“ segir Þórdís Lóa, en eins og fjallað hefur verið ítarlega um síðustu misseri hafa fjölmörg verkefni á ábyrgð borgarinnar, líkt og Bragginn í Nauthólfsvík, Alliance húsið, Hlemmur Mathöll og annað farið fram úr upphaflegum kostnaðaráætlunum.

„Kerfið sem sveitarfélög um allt land hafa komið sér upp, svokölluð byggðasamlög, eru að mínu mati óskiljanlegt fyrirbæri sem klífur ábyrgð og ákvarðanatöku í sundur. Ákvarðanataka og framkvæmd verða að taka mið af hlutverki, ábyrgð og umboði sem er tilfellið hjá Sorpu.“

Þórdís Lóa segir að ekki sé hægt að leiða hjá sér að sveitarfélögin séu þarna að fá háan bakreikning sem eigi að fjármagna með lántöku upp á nærri milljarð og tryggingu sveitarfélagana. „[N]ú er skuldastaða sveitarfélaganna sett í uppnám og framkvæmdaaðili setur ábyrgðina yfir á sveitarfélögin,“ segir Þórdís Lóa.

„Upphæð af þessari stærðargráðu mun setja langvarandi fótspor á fjármál sveitarfélaganna. Borgarráð mun fá framkvæmdastjóra og stjórnarformann Sorpu á fund í vikunni og krefjast skýringa.“