*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 12. júní 2018 12:33

Verðmeta Eimskip 31% yfir markaðsvirði

Capcent telur Eimskip undirverðlagt þrátt fyrir dökkar horfur.

Ástgeir Ólafsson

Ráðgjafarfyrirtækið Capacent verðmetur gengi bréfa Eimskips á 250 krónur á hlut samkvæmt verðmati sem dagsett er 5 júní. Er það um 31% hærra verð en sem nemur markaðsvirði bréfanna sem stendur nú í 190,5 krónum á hlut. Verðmatið er unnið með frjálsri fjárflæðisaðferð. 

Þrátt fyrir að verðmatið sé hátt yfir markaðsvirði bréfanna, lækkar Capacent verðmat sitt um 11% frá síðasta verðmati. Verðmat á heildarmarkaðsvirði félagsins hljóðar upp 379 milljónir evra en var 425 milljónir í síðasta verðmati. Samkvæmt greiningarfyrirtækinu er meginástæðan að baki lægra mati sú að rekstraráætlun Eimskipa hefur verið endurskoðuð.  

Endurskoðuð rekstraráætlun og sjóðstaða leiðir til rúmlega 8% lækkunar auk þess sem hærri fjármagnskostnaður lækkar verðmatið um 3% til viðbótar frá fyrra mati. Lækkun rekstraráætlunar kemur heim og saman við þá staðreynd að stjórnendur Eimskips lækkuðu EBITDA spá sína fyrir árið 2018 þegar uppgjör fyrsta ársfjórðungs var birt. Fyrri spá stjórnenda gerði ráð fyrir EBITDA á bilinu 60-65 milljónir evra en var lækkuð niður í 57-63 milljónir evra. Hljóðar EBITDA spá Capacent upp á 57,5-62 milljónir evra. 

Aukinn óvissa og dökkar horfur

Samkvæmt Capacent er horfurnar í rekstri Eimskip ekki sérlega bjartar. Félagið skilaði tapi upp á 1,6 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Eftir samfelldan rekstarbata frá 2014 til 2017 hefur rekstur félagsins verið undir væntingum og var 2017 lélegasta rekstrarár félagsins í um þrjú ár. Þrátt fyrir að tekjur hafi aukist um 8,4% á fyrsta ársfjórðungi þá dróst EBITDA saman um 0,9 milljónir evra samanborið við sama ársfjórðung árið áður. Telur Capacent að fyrsti ársfjórðungur í rekstri félagsins sé jafn drungalegur og sumarbyrjun 2018. 

Capacent metur fjármagnskostnað Eimskip 9,4% sem er 0,1 prósentustigi hærra en áður. Samkvæmt greiningunni má rekja hærri fjármagnskostnað til rannsóknar samkeppniseftirlitsins á mögulegum samkeppnislagabrotum félagsins. Bæði forstjóri og framkvæmdastjóri alþjóðasviðs félagsins hafa réttarstöðu sakbornings. Þar að auki gæti félagið átt yfir höfði sér sektargreiðslur auk þess sem rannsóknin dragi athygli og kraft frá rekstri að mati Capacent.