*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 12. maí 2018 13:09

Vill ekki þvinga fram breytingar

„Við viljum breyttar ferðavenjur en ekki þvinga upp á það breyttar ferðavenjur,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum, var viðmlændi Viðskiptablaðsins í vikunni sem er að líða. Viðtalið í heild má lesa í Viðskiptablaðinu en annan bút úr viðtalinu má lesa hér.

Núverandi meirihluti hefur mikið horft á breyttar ferðavenjur til að liðka fyrir samgöngum, er það eitthvað sem þið horfið til?

„Við viljum breyttar ferðavenjur en ekki þvinga upp á það breyttar ferðavenjur. Besta leiðin til að bæta ferðavenjur til lengri tíma er að fjölga atvinnutækifærum í austurborginni og hafa hverfin sjálfbærari þannig að það sé meira um að vera í hverfunum sjálfum. En að þvinga fólk árið 2018 hugnast okkur ekki. Þessar kosningar snúast um hvort fólk fái val um hvernig það ferðast, val um búsetu og val um að geta fengið leikskólapláss. Það er okkar sýn, frelsi einstaklingsins og val.“

Viðtal við Dag B. Eggertsson borgarstjóra birtist í Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Þar talaði hann um að sú mikla uppbygging sem er að klárast í Mosfellsbæ og Garðabæ séu hverfi sem eru áratug á eftir áætlun. Þar sé hins vegar ekkert í pípunum núna. Í kosningaloforðum Sjálfstæð- isflokksins er talað um að byggja 2.000 íbúðir á ári. Það eru ellefu íbúðir annan hvern dag og fleiri íbúðir en voru byggðar á landinu öllu árið 2017. Það er rosalega háleitt markmið.

„Það er rosalega mikil uppsöfnuð þörf eftir íbúðarhúsnæði. Íbúðalánasjóð- ur bendir á að það vanti 17.000 íbúðir. Ástæðan fyrir þessari háu tölu okkar er til að ná jafnvægi á markaði. Það er merkilegt að Dagur B. Eggertsson bendi á hvað hin sveitarfélögin hafi verið lengi í uppbyggingu. Hann hefur verið sextán ár í borgarstjórn og hefur haft nokkuð góðan tíma til að búa borgina undir uppbyggingu. Samt var ekkert gert í mörg ár, löngu eftir að hann komst í meirihluta fyrir átta árum. Samt sem áður hefur þetta dregist svona mikið. Hin sveitarfélögin, og ég nefni Árborg því ég var þar, brugðust strax við með því að skipuleggja ný svæði. Þau sáu þörf fyrir íbúðir. Það er skylda sveitarfélaga að vera við- búin með skipulagið en ekki bíða eftir hápunkti hagsveiflunnar og koma þá með viðbragð. Það er of seint.“

Íbúðir í Örfirisey eftir þrjú ár

Sérðu borgina fyrir þér vaxa inn á við, út á við eða kannski hvort tveggja?

„Borg er að mörgu leyti eins og ávöxtur sem þarf að vaxa eðlilega. Þeir sem stjórna núna hafa farið í þrönga þéttingu, þéttingu á mjög dýrum blettum sem hefur gert það að verkum að fólk hefur flutt annað. Borgin hefur í raun og veru gisnað. Það hefur verið um 10% fækkun íbúa í miðborg Reykjavíkur. Það veikir til lengri tíma vesturhluta Reykjavíkur. Þess vegna segi ég að við eigum að spila sóknarbolta þar líka og byggja upp í Örfirisey. Þar er hægt að koma með litlar og spennandi einingar svipaðar og í Brooklyn og Hollandi þar sem verið er að fara inn á svæði sem er ekki gróin íbúðabyggð. Þannig sé ég fyrir mér að borgin vaxi eðlilega, ekki bara á dýrustu svæðunum og ekki of langt í burtu frá kjarnanum,“ segir Eyþór og segir að fyrstu íbúðirnar í Örfirisey gætu risið á þremur árum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: kosningar x18