*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 13. október 2021 17:36

VÍS leiddi hækkanir eftir kaup Akta

Bréf VÍS hækkuðu um ríflega 4% í dag, en tilkynnt var síðdegis að Akta sjóðir hefðu keypt 1,3% í félaginu á fimmtudag.

Ritstjórn
Helgi Bjarnason er forstjóri VÍS.

VÍS leiddi hækkanir á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag með 4,06% hækkun í 278 milljóna króna viðskiptum. Tilkynnt var um 460 milljóna króna kaup sjóða í rekstri Akta á 1,3% hlut í VÍS í dag, en kaupin sjálf áttu sér stað síðasta fimmtudag.

Svo til öll félög hækkuðu eða stóðu í stað í viðskiptum dagsins, sem námu alls 4,3 milljörðum króna, og úrvalsvísitalan hækkaði um 0,47%.

Brim fylgdi í kjölfar VÍS með 3,26% hækkun í 222 milljóna viðskiptum og því næst komu bréf Icelandair með 3,11% í 183 milljónum.

Alls hækkuðu 12 félög af 20 í viðskiptum dagsins, 6 stóðu í stað, og 2 lækkuðu. Sýn lækkaði um 0,9% í 72 milljóna veltu og Eik um 0,85% í 123 milljónum.

Langmest viðskipti voru með bréf Arion banka í dag, fyrir ríflega 1,2 milljarð króna, en bankinn hækkaði um 0,53%. Stuttu eftir lokun markaða tilkynnti bankinn síðan um þriðjungi meiri hagnað á síðasta ársfjórðungi en greinendur höfðu spáð.

Bréf Kviku skiptu um hendur fyrir 439 milljónir og enduðu daginn 0,76% hærra en við opnun, og 381 milljón króna var greidd fyrir bréf Símans, sem hækkuðu um 1,35% í viðskiptum dagsins.

Stikkorð: VÍS Kauphöllin