*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 27. nóvember 2018 16:26

Wow fækkar um fjórar vélar

WOW air mun fækka í flota sínum um fjórar Airbus vélar.

Ritstjórn
Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri Wow air.
Haraldur Guðjónsson

WOW air mun fækka í flota sínum um fjórar Airbus vélar. Þessi aðgerð er hluti af endurskipulagningu á rekstri félagsins en legið hefur fyrir að minnka þurfi flotann til þess að auka hagkvæmni, draga úr árstíðasveiflu og hámarka arðsemi segir í tilkynningu frá Wow air.

„Um er að ræða tvær Airbus A320 vélar og tvær Airbus A330 vélar sem ekki hefðu nýst sem skildi í vetraráætlun WOW air.  Þá skal jafnframt taka fram að hagræðing þessi mun ekki hafa áhrif á áform WOW air um að fljúga til Indlands en flug þangað hefst 6. desember næstkomandi," segir í tilkynningunni.

Í bréfi sem Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, sendi kaupendum skuldabréfa í skuldabréfaútboði félagsins í september, kom fram að langtímafjármögnun Wow air væriótrygg vegna versnandi aðstæðna en unnið væri að því að tryggja félaginu aukið fé. Neikvæð umfjöllun um stöðu félagsins hefði dregið úr sölu og gert lánakjör verri, hækkun olíuverðs hefði einnig haft neikvæð áhrif. Stefnt hefði verið að því að ganga frá sölu- og endurleigusamningum upp á 25 milljónir dollara sem dottið hefðu upp fyrir eftir gjaldþrot Primera Air.

Í fjárfestakynningu Wow frá því í ágúst, vegna skuldabréfaútboðsins, kom fram að flugvélafloti Wow air teldi 20 flugvélar en stefnt er að því fjölga í 22 á þessu ári og 24 á næsta ári. Í lok september var svo greint frá því að afhending á tveimur Airbus A330neo vélum mun frestast frá nóvember og fram í lok febrúar. Vegna þessa felldi Wow air niður flug í Stokkhólms, Edinborgar og San Francisco yfir vetrarmánuðina.

Stikkorð: Skúli Mogensen Wow air