Bakkavararbræður, Ágúst og Lýður Guðmundssynir, eiga í dag rétt rúmlega 50% hlut í Bakkavör, fyrirtækinu sem þeir stofnuðu fyrir 37 árum. Bræðurnir eru ofarlega á lista yfir ríkustu Íslendinganna samkvæmt nýútkominn úttekt Frjálsrar verslunar.

Ágúst og Lýður voru í 320. sæti á lista The Sunday Times yfir ríkasta fólk Bretlands árið 2020.

Bræðurnir voru umsvifamiklir í fjárfestingum hér á landi í gegnum fjárfestingafélagið Exista fram að falli íslensku bankanna árið 2008. Kröfuhafar tóku yfir Bakkavör í kjölfar fjármálahrunsins en bræðurnir héldu þó áfram um stjórnartaumana. Þeir eignuðust svo meirihluta í Bakkavör árið 2016 og var félagið í kjölfarið skráð á markað á Bretlandi.

Ágúst lét af störfum sem forstjóri Bakkavarar í lok október en bræðurnir sitja áfram í stjórn félagsins. Þá er Frigus, félag í eigu bræðranna, næst stærsti hluthafi Origo.

Samnefnt félag bræðranna hefur staðið í málaferlum gegn íslenska ríkinu vegna söluferlis á hlut ríkisins í Klakka, gamla Exista.

Áskrifendur geta lesið um 50 ríkustu Íslendingana í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar og þá er hægt að kaupa tölublaðið hér.