Óðinn gleðst alltaf þegar fyrirtækjum gengur vel. Hann las á nýjum vef Viðskiptablaðsins, vb.is, að heimilistækjaverslunin Pfaff hefði skilað methagnaði, eða 80 milljónum króna. Vel af sér vikið.

Bakþankar um Bakþanka?

Óðinn skrifaði langan pistil í haust um Bakþanka Margrétar Kristmannsdóttur, framkvæmdastjóra og eins eigenda Pfaff í Flettiblaðinu, tímariti Viðreisnar. Má segja að inntak Bakþankanna hafi verið þetta:

Það eru margir á því að íslenska skattkerfið sé ekki sanngjarnt – að breiðustu bökin beri einfaldlega ekki sinn skerf. Þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur snýst því ekki um öfund heldur réttlæti.

Óðinn vildi auðvitað ekki, sem von er, að Margrét engdist um vegna þess arðskvíða og skattkvíða sem hún augljóslega var haldin og kom með nokkrar lausnir á því hvernig hún sem eigandi í fyrirtæki gæti hækkað skattbyrði sína ef hún teldi hana of lága.

Reyndar þurfti Óðinn fyrst að leiðrétta misskilninginn um að þeir sem fjárfesta í atvinnurekstri greiði aðeins 22% skatt:

Það sem mestu skiptir er að sá sem leggur fé í atvinnurekstur greiðir ekki 22% fjármagnstekjuskatt. Áður er félagið búið að greiða 20% í tekjuskatt auk tryggingagjalds. Því greiðir fjárfestirinn að minnsta kosti 37,6% skatt þegar hann hefur fengið arð í hendur.

Einstaklingur greiðir 31,45% til 46,25% tekjuskatt en frá dregst persónuafsláttur. Samkvæmt Hagstofunni voru meðallaun á Íslandi 794 þúsund krónur árið 2020. Sá sem er með slík laun greiðir 27,2% í tekjuskatt og meðalútsvar. Til þess að ná sama skatthlutfalli og fjárfestirinn þarf launamaður að vera með rúmar 2,2 milljónir króna á mánuði í laun.

Við þetta má svo bæta að þeir sem stofna fyrirtæki taka áhættu með sparifé sitt. Ef reksturinn gengur illa þá tapa þeir því fé.

Hugsanlega hefur Margrét fengið bakþanka um Bakþanka sína. Í það minnsta er ekki að sjá að hún farið eftir þeim einföldu tillögum sem Óðinn lagði til, svo hún gæti sofið betur á næturnar vegna „lágra“ skatta.

***

Í nýjasta ársreikningi Pfaff, þar sem var methagnaður, var einnig metútgreiðsla á arði. Hann er greiddur á hefðbundinn hátt og það er ekki hægt að túlka öðruvísi en þannig að Margrét hafi lesið pistil Óðins og loks skilið hvernig skattkerfið virkar.

Þeir sem eru í einhverjum vafa um hvernig eigi að bera saman skatta launamanna og þeirra sem eru í atvinnurekstri ættu einnig að lesa pistilinn – sem er alveg hreint ágætur, þó Óðinn segi sjálfur frá.

Hægt er að lesa Óðinn í heild sinni hér. Skoðanapistillinn birtist í Viðskiptablaðinu 26. maí 2022.