SKEL fjárfestingafélag, áður Skeljungur, hefur gert kaupréttarsamninga upp á allt að 5% hlut í félaginu við nýjan forstjóra og fjármálastjóra félagsins sem ráðnir voru í dag, en alls getur fjárhæð kaupréttanna numið nærri tveimur milljörðum króna.

Í morgun var tilkynnt um að Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason hefði verið ráðinn forstjóri fyrir SKEL fjárfestingafélag og því láta af störfum sem aðstoðarbankastjóri Arion banka. Þá var Magnús Ingi Einarsson, framkvæmdastjóra bankasviðs Kviku, ráðinn fjármálastjóri hjá SKEL.

Kaupréttarsamningarnir eru í tilkynningu sagði í samræmi við kaupréttaráætlunin sem samþykkt var á aðalfundi félagsins þann 10. mars, en á fundinum var einnig samþykkt að breyta nafninu Skeljungs í SKEL fjárfestingafélag. Í greinargerð með tillögunni kom fram að markmiðið væri „að laða að hæft lykilstarfsfólk, halda því innan félagsins á samkeppnishæfum kjörum og samtvinna langtíma hagsmuni starfsfólks, félagsins og hluthafa allra.“

Sjá einnig: Kaupréttir í algleymingi

Kaupréttarsamningur Ásgeirs kveður á um kauprétti að 62 milljónum hluta en nýtingarverð kaupréttanna er 16,428 krónur á hlut sem samsvarar vegnu meðalverði í viðskiptum með hluti í SKEL síðustu tíu heila viðskiptadaga fyrir gerð samningsins.

Heimilt er að nýta kaupréttina eftir þrjú ár að einum þriðja, annan þriðjung eftir fjögur ár og síðasta þriðjunginn eftir fimm ár. Í millitíðinni á nýtingarverð kaupréttanna að hækka um 7% á ári en arðgreiðslur og önnur úthlutun til hluthafa skal koma til lækkunar nýtingarverðsins. Sé horft fram hjá hugsanlegum arðgreiðslum nemur kaupréttargengið því um 20 krónum á hlut eftir þrjú ár. Þá er kveðið á um að greiða verði fyrir kaupréttina með reiðufé, kaupréttirnir falli niður láti þeir af störfum hjá félaginu og að 15% af mögulegum hagnaði af kaupréttunum skuli geyma til starfsloka.

Miðað við það getur Ásgeir keypt hluti í SKEL fyrir yfir milljarð króna samkvæmt kaupréttarsamningunum og eignast með því um 3% hlut í félaginu miðað við núverandi útgefið hlutafé í SKEL.

Þá fær Magnús Ingi kauprétt að 32 milljónum hluta sem samsvarar um 700 milljónum króna miðað við nýtingarverðið auk vaxta eða um 1,6-1,8% hlutur í SKEL.

Líkt og venja er með kauprétti geta þeir hagnast á kaupréttinum verði hlutabréfaverði í SKEL hærra en nýtingarverðið eftir þrjú til fimm ár en verði það lægra eru þeir ekki skuldbundnir til að nýta kaupréttina til að kaupa hluti í félaginu.

Hlutabréfaverð hjá SKEL hækkaði um 7% í dag í kjölfar þess að tilkynnt var um ráðningarnar og hefur ekki verið hærra frá því félagið var skráð á markað. Gengi bréfanna stóð í 18,3 krónum við lokun markaða.

Tólf milljarða hagnaður af eignasölu

Umtalsverð breyting verið gerð á SKEL frá því að fjárfestingafélagið Strengur eignaðist meirihluta í Skeljungi í byrjun síðasta árs líkt og fjallað var um í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Strengur gerði upphaflega yfirtökutilboð í Skeljungi í nóvember 2020 á genginu 8,315 krónur á hlut. Jón Ásgeir Jóhannesson, sem bæði er stjórnarformaður hjá SKEL og Strengi, sagði í ársskýrslu félagsins að andinn hjá Skeljungi árið 2019 hafi verið líkt og að labba inn hjá ríkisstofnun í gamla daga en nú væri andinn allt annar og leikgleði alls ráðandi.

Tólf milljarða hagnaður myndast hjá SKEL af sölu eigna, annars vegar á hlut í olíufélaginu P/F Magn í Færeyjum og svo sölu fasteigna sem voru að stærstum hluta seldar til fasteignafélagsins Kaldalóns, sem Strengur er einnig stærsti hluthafinn í.  Fasteignirnar verða að hluta verð leigðar aftur af SKEL.