Líkt og undanfarna daga lækkuðu hlutabréf fasteignafélaganna mest í viðskiptum dagsins sem námu 1,5 milljörðum króna. Hlutabréf Reita lækkuðu mest eða um 6,46% og standa bréf félagsins í 42 krónum. Næst mest lækkuðu bréf Eikar um 4,45% og standa þau í 5,8 krónum. Þriðja mest lækkun var á bréfum Regins um 3,85% og standa í 13,75 krónum.

Reitir birti árshlutauppgjör í gær þar sem fram kom að rekstrarhagnaður félagsins hafði dregist saman um 73%. Fyrir matsbreytingar hefur rekstrarhagnaður félagsins dregist saman um 10% en Reitir hefur tapað ríflega 1,2 milljörðum króna það sem af er ári.

Sjá einnig: Reitir ráðast í hlutafjárútboð

Hlutabréf Eikar og Reita hafa aldrei verið lægri. Bréf Regins voru síðast jafn lág árið 2013. Eik mun birta árshlutauppgjör á fimmtudag síðar í vikunni en Reginn birti uppgjör 13. ágúst síðastliðinn.

Vísitala OMXI10 lækkaði um 0,63% í viðskiptum dagsins og stendur hún í 2.072 stigum. Mest hækkun var á bréfum Símans um 2,19% en félagið birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða í dag. Næst mest hækkuðu bréf Brims um 0,72%.

Auk fasteignafélaganna eru hlutabréf Sýnar í lægstu lægðum og standa í 23,35 krónum hvert. Bréfin lækkuðu um ríflega eitt prósent í viðskiptum dagsins en hafa lækkað um 33% á árinu.