*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Erlent 1. ágúst 2018 10:30

Samþykkja eignarnám lands án bóta

Stjórnarflokkurinn í S-Afríku vill breyta stjórnarskránni í 18. skipti síðan lok aðskilnaðarstefnunnar, nú til að taka land af hvítum.

Ritstjórn
Forseti Suður Afríku frá 15. febrúar 2018, Cyril Ramaphosa leiðtogi Afríska þjóðarráðsins, tók á móti forseta Kína í lok júlí.
epa

Forseti Suður Afríku, Cyril Ramaphosa tilkynnti í gæri að Afríska þjóðarráðið, ANC, sem hefur stýrt landinu síðustu 24 árin muni styðja stjórnarskrárbreytingu sem heimili án vafa upptöku lands hvítra íbúa landsins bótalaust. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá var Jakob Zuma, fyrrum forseti landsins settur af með stuðningi stjórnarflokksins vegna spillingar í byrjun árs.

Kosið verður til þings og forseta á næsta ári, en eignarhald hvítra bænda á mörgum af hagkvæmustu jörðum landsins hefur löngum verið umdeilt pólítískt mál í landinu. Aðalritari ANC, Ace Magashule sagði fréttamönnum á mánudag að forsetinn hefði nefnt þetta tilfinningaríka mál og að stjórnarskráin heimilaði nú þegar aðgerðir sem ríkisstjórnin gæti þegar gripið til.

Stefnubreyting vegna klofningsflokks til vinstri

Á flokksráði ANC í desember tók flokkurinn upp þá stefnubreytingu að heimila upptöku lands og studdi hann tillögur klofningsframboðsins Efnahagslegu frelsisbaráttumennirnir, EFF um upptökuna í þingi landsins í febrúar.

Á málþingi um landarmálin í maí hafði þó flokkurinn tekið þá ákvörðun að láta reyna á þær heimildir sem stjórnarskráin sem samþykkt var í kjölfar fyrstu sameiginlegu kosninga allra íbúa landsins árið 1994 inniheldur nú þegar.

Kom fram í tilkynningu flokksins að þetta yrði gert því að margir teldu að liður 25 í stjórnarskránni heimilaði upptöku lands án bóta til núverandi eigenda. Var þar meðal annars vísað í rétt ýmissa opinberra stofnanna til að taka land eignarnámi, án bóta.

Fyrrum bandamaður Mandela og Zuma

Ramaphosa forseti stóð í eldlínu baráttunnar gegn Aðskilnaðarstefnu hvíta minnihlutans í landinu sem öllu réð fyrir 1994, með bæði Nelson Mandela fyrsta forseta sameinaðrar Suður Afríku og fyrrum forseta, Jakob Zuma á sínum tíma.

Yfirlýsing hans nú kemur í kjölfar þess að stjórnarskrárnefnd þingsins er að ljúka yfirheyrslum um skilning á stjórnarskránni í núverandi mynd, og hvort þurfi að breyta grein 25.

Stjórnarskrá samþykkt af meirihlutanum breytt 17 sinnum

Síðan stjórnarskráin var samþykkt af fyrsta þingi landsins eftir kosningarnar 1994, eftir langt sáttaferli mismunandi hópa í landinu, hefur ANC nýtt aukinn meirihluta sinn í þinginu til að breyta henni sautján sinnum. Margar breytingarnar voru gerðar til að færa mörk héraða til að tryggja áframhaldandi meirihluta ANC í þeim, en flokkurinn ræður átta af níu héruðum landsins.

Ef breytingin fer nú í gegn yrði þetta sú átjanda. Andstæðingar landupptökunnar hafa bent á slæmt fordæmi og efnahagshrun Zimbabwe í kjölfar landupptöku, en stjórnvöld hafa sagt að ekki sé hætta á því.

Horfur í efnahagslífinu bötnuðu með valdatöku Ramaphosa

Í frétt suðurafríska fjölmiðilsins News24 um málið er jafnframt sagt frá því að á íbúafundum með stjórnvöldum hafi bágborin staða efnahagslífsins í landinu einnig verið mikið rædd.

Þar með talið von stjórnvalda um að koma af stað aðgerðum til örva hagkerfið með útgjaldaaukningu, en skuldir landsins hafa löngum sligað efnahagskerfið. Með valdatöku Ramaphosa hafa matsfyrirtækin þó uppfært horfurnar úr neikvæðum í stöðugar og hafa skuldabréf landsins haldist rétt fyrir ofan ruslflokk síðan.

Magashule, aðalritari ANC sagði einnig að flokkurinn ræddi einnig um lausnir við háu verðlagi í kjölfar hækkunar á virðisaukaskatti og hækkandi eldsneytisverðs.

Svarti meirihlutinn sagður eiga minna en 10% landsins

Deildar meiningar eru um hve mikið af landbúnaðarlandi Suður Afríku sé í eigu hvítra og hve mikið í eigu svartra, en hvítir ná ekki að vera 5% íbúanna en stjórnvöld segja svarta íbúa landsins einungis eiga um 9% alls landsins.

Stjórnvöld hafa löngum staðið í kaupum á landi frá hvítum bændum og afhenda það svörtum til að jafna upp þennan mun, en að mati annarra hafa frjáls viðskipti manna á milli flutt tvöfalt meira land frá hvítum til svartra en áætlun stjórnvalda.

Framkvæmdastjóri stofnunar De Klerk, síðasta forseta landsins undir Aðskilnaðarstefnunni, segir hins vegar að svartir eigi nú þegar yfir helmings alls ræktunarlands í Suður Afríku, en stór hluti þess er undir stjórn ættbálkahöfðingja.

Fleiri fréttir frá Suður Afríku: