*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Innlent 15. september 2019 18:40

Bjarni: „Höfum trassað samgöngubætur“

„Já við þurfum að borga meira fyrir að nota vegakerfið“ segir fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins opnaði flokksráðsfund Sjálfstæðisflokksins í gær, en þar ræddi hann m.a. um orkupakka 3, orkuskipti og samgöngumál í borginni.
Haraldur Guðjónsson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins setti hugmyndir um tollvegi innan höfuðborgarinnar sem komu fram í vikunni í samhengi við orkuskipti og loftslagsmál í ræðu sinni á flokksráðsfundi í gær. Hann sagði að heildarálögurnar ættu ekki að þurfa að vaxa og ræddi gjöld af bílainnfluttningi sem hafa farið lækkandi að meðaltali og væru „gamli tíminn“.

Nefndi Bjarni í því samhengi innheimtu gjalda af innfluttum bílum og benti á að vegna ívilnana til vistvænna bíla hefði ríkið orðið af 3 milljörðum króna í tekjum bara á síðasta ári þegar 3.500 svokallaðir vistvænir bílar hefðu verið fluttir inn, og sagði það skattalækkun sem sjaldan væri minnst á.

Sagði hann innheimtu gjalda af bílainnflutningi eiga rætur í fortíðinni, líklega til að spara gjaldeyri, og sagði ekkert eðlilegt við að verð á bíl tvöfaldaðist við innflutning. Ekki kom þó fram hvort hann sæi fyrir sér að draga úr álögum á alla bíla sama hvaða eldsneyti þeir nota en þó sagði hann að hvetja ætti til orkuskipta því það væri betra fyrir þjóðina að nota innlenda orkugjafa.

Átak fyrir 125 milljarða, þar af 70 í Borgarlínu en 60 komi frá veggjöldum í borginni

Sagði Bjarni að uppbygging samgöngukerfisins á höfuðborgarsvæðinu hefði verið trassað en nú ætti að fara í mikið átak. Fyrr í vikunni tilkynnti Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra samgöngumála framtíðarsýn ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um hvernig því skyldi háttað.

Samkvæmt fréttum RÚV um málið er ætlunin að setja um 125 milljarða króna í framkvæmdir í borginni til ársins 2033, en þar af komi 60 milljarðar með veggjöldum á helstu stofnleiðum fyrir almenna umferð í borginni.

Undirritun samkomulagsins sem átti að fara fram í vikunni var þó frestað eftir efasemdir nokkurra stjórnarþingmanna að því er Morgunblaðið greindi frá í gær, en athygli vekur að efni þess er bundið trúnaði fram að undirritun. Talað er um að hver ferðaleggur kosti bílaeigendur um 200 til 600 krónur, en gjaldið geti verið breytilegt eftir því hvort um álagstíma eða ekki er að ræða.

FÍB segir kostnaðinn 400 þúsund á bílaeigenda á ári

Runólfur Ólafsson formaður FÍB segir þessa upphæð óásættanlega enda gæti hún kostað bílaeigendur um 400 þúsund krónur á ári, félagið sé alfarið á móti hugmyndunum.

Haft er eftir Jóni Gunnarssyni, sem kosinn var ritari Sjálfstæðisflokksins á fundinum í gær, að þverpólítísk sátt væri um vegtolla. Lengi hefur verið umræða um slík gjöld á stofnbrautum í kringum borgina, en ekki er hægt að finna mikla umræðu um slík gjöld innan borgarinnar þegar leitað er á veraldarvefnum, utan fréttar frá því í maí um að borgin væri að skoða tafagjöld á einkabíla.

Þegar Morgunblaðið leitaði eftir því könnuðust þingflokkar stjórnarandstöðuflokkanna á þingi hins vegar ekki við þverpólítíska sátt í málinu, Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingar sagði ríkisstjórnina ekki hafa kynnt neinar útfærslur, Hanna Katrín Friðriksdóttir þingflokksformaður Viðreisnar segist ekki vita í hvaða sátt sé verið að vísa og Halldóra Mogensen formaður þingflokks Pírata segir slíka sátt vera „bull“.

Gunnar Bragi Sveinsso formaður þingflokks Miðflokksins segir slíka tolla eingöngu koma til greina ef aðrir skattar lækkuðu á móti, þeir mættu ekki verða viðbótarskattur á bílaeigendur, og sagði stöðuna í samgöngumálum borgarinnar á ábyrgð þeirra sem gerðu samkomulag um framkvæmdastopp fyrir 10 árum. Guðmundur Ingi Kristinsson þingflokksformaður Flokks fólksins sagði það loks „algert rugl“ að greiða fyrrnefnda 400 þúsund krónur á ári fyrir hverja bifreið.

Framkvæmdir hefjist eftir rúmt ár

Af heildarfjárhæðinni vegur svokölluð Borgarlína, strætóleiðir á sérstökum akreinum, mestu eða um 70 milljarðar króna. Á dögunum var jafnframt tilkynnt um að fyrstu áfangar hennar muni ná frá Ártúni niður á Lækjartorg í Reykjavík og aftur þaðan í Hamraborg í Kópavogi yfir sérstaka strætó-, göngu- og hjólabrú yfir Fossvoginn.

Eiga framkvæmdir við þessa fyrstu tvo leggi brautarinnar að hefjast strax á þar næsta ári, árið 2021, en verða svo lögð í áföngum til ársins 2033. Einnig er ætlunin að setja mislæg gatnamót við Bústaðaveg og Reykjanesbraut og grafa stokka eftir tveim helstu þjóðvegum borgarinnar, Miklubraut og Sæbraut að hluta.

Hagsmunamál Íslendinga að orkuskiptin gangi hraðar hér

Í ræðu sinni við opnun flokksráðsfundar Sjálfstæðisflokksins fór formaðurinn Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra  yfir árangur flokksins við að ná fram markmiðum sínum í ríkisstjórn. Nefndi hann meðal annars frumvarp um skattalækkanir sem nú hafa verið lagt fram en athygli vekur að þær fela þó í sér viðbótarskattþrep sem er aukið flækjustig þvert á stefnu flokksins til margra ára.

„Við sögðum sömuleiðis ætla að styrkja innviðina og við sögðum að það þurfi að sinna verkefnum á við það sem er á dagskrá í dag, að skoða ávallt umfang hins opinbera [...] Erum við einhvers staðar að forgangsraða með röngum hætti,“ sagði Bjarni í setningarræðu sinni á flokksráðsfundinum og sagðist vilja setja málið í stærra samhengi og nefndi þar loftslagsmál, orkuskipti og minnkandi tekjur ríkisins af bílainnflutningi að meðaltali.

„Sko, það eru að verða mikil orkuskipti, og það eru hagsmunamál okkar Íslendinga að þau mál gangi hraðar frekar en hægar, ekki bara út af einhverjum loftslagsmálum, nei, það eru stórir efnahagslegir hagsmunir í því fyrir okkur Íslendinga. Að við getum ferðast um landið, að samgöngukerfi okkar Íslendinga, sé drifið áfram af orku sem við sjálf búum til, en erum ekki að flytja inn í tankskipum að utan. Þetta er stórkostlegt efnahagslegt mál. Að við hættum að kaupa orkuna af öðrum þjóðum, þegar við búum yfir orku sem að við getum framleitt hér á Íslandi.

Við ráðum okkur auðvitað ekki algerlega sjálf í þessu, vegna þess að tæknilegar framfarir, í ökutækjaframleiðslu, eru auðvitað forsenda þess að þetta geti orðið að veruleika, en við eigum að hvetja til þess að þetta gerist sem fyrst. Og það sem við sjáum nú þegar er að fólk tekur fagnandi þeim áherslum sem við erum að beita okkur fyrir, þeim ívilnunum sem við höfum innleitt. Þannig er til dæmis að meðaltali hver bíll að koma með miklu lægri álögur inn í landið.

Meðalálagningin við innflutninginn er að falla niður. Bara í fyrra gáfum við afslátt upp á þrjá milljarða í virðisaukaskattkerfinu fyrir þrjú þúsund og fimm hundruð vistvæna bíla sem voru fluttir inn. Það er þriggja milljarða skattaafsláttur sem er sjaldan minnst á.

Og humyndir um að menn fari að borga meira fyrir að nýta vegakerfið rýma vel við þetta, vegna þess að við ætlum að fara að gera minna af því að leggja álögur á ökutæki þegar þau koma inn í landhelgina, til landsins, og meira af því að borga eftir því sem vegakerfið er notað. Þetta er eðlileg breyting, og þegar hún er að fullu gengin fram, þá erum við farin að treysta á eigin orkuframleiðslu, og passa betur upp á umhverfið og loftslagsmálin, þannig að það er tvöfaldur ávinningur í því fyrir okkur að þetta geti gengið eftir.

Síðan er það auðvitað sérstakt verkefni að við höfum trassað samgöngubætur hér á höfuðborgarsvæðinu, og að því leitinu til stöndum við frammi fyrir því að fara í átak. Í þessu stóra samhengi bið ég ykkur um að hugsa um þessi mál. Já við þurfum að borga meira fyrir að nota vegakerfið, en það er ekkert eðlilegt að verð til dæmis á bíl sem er framleiddur í öðrum löndum, að verðið tvöfaldist við það eitt að bíllinn er fluttur til Íslands.

Það er gamli tíminn, það er gamla hugsunin að ná sem mestu bara þegar fólk sækir sér ökutæki, og eflaust án þess að ég hafi skoðað það eitthvað sérstaklega þá á það rætur einhvers staðar langt í fortíðinni að menn voru að spara gjaldeyri, en það eru uppi aðrir tímar í dag. Þetta vildi ég minnast á.

Það gengur vel í stjórnarsamstarfinu, og við erum að fara í orkuskipti af fullum krafti og við munum taka réttar ákvarðanir. Af hálfu Sjálfstæðisflokksins, munum við leggja áherslu á það að jafnvel þótt við förum í átak í uppbyggingu samgönguinnviða, þá þurfa heildarálögur á ökutæki og notkun þeirra ekki að vaxa inn í framtíðina.

Heildarálögurnar þurfa ekki að vaxa. Stærsta einstaka tækifærið sem við höfum til að fara í enn frekari uppbyggingu innviðanna, liggur í sölu fjármálafyrirtækja. Að við förum í umbreytingu eigna ríkisins, að við förum frá því að eiga á annað hundruð milljarða bundið í Íslandsbanka, látum aðra sjá um þann rekstur, og losum um fjármuni til þess að fjárfesta í framtíð landsins.“

Hér má lesa frekari fréttir um hugmyndir um veggjöld og vegatolla á þjóðvegum landsins: