*

miðvikudagur, 25. nóvember 2020
Erlent 15. september 2019 22:27

Olíutunnan hækkað um 19%

Tunna af hráolíu hefur hækkað um 19% í fyrstu viðskiptum dagsins í Singapúr.

Jóhann Óli Eiðsson
Creative Commons (CC BY-SA 3.0)

Tunna af hráolíu hefur hækkað um 19% í fyrstu viðskiptum dagsins í Singapúr. Ástæðan er árás sem gerð var á eina stærstu olíuvinnslustöð í Sádi-Arabíu. Áætlað er að árásin hafi eytt um fimm prósentum af birgðum heimsins af orkugjafanum.

Í fyrstu viðskiptum dagsins í Singapúr stökk hráolíutunnan upp um tæpa 12 dollara og stendur nú í tæpum 72 dollurum. Sagt er frá á vef Bloomberg. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun eru Bandaríkjamenn tilbúnir að nýta olíubirgðir sínar, sem duga ættu í 110 daga, til að draga úr verðsveiflum, en einnig hafa Sádi Arabar farið þess á leit við önnur OPEC ríki að þau framleiði meira.

Árásin átti sér stað á laugardag. Áætlað er að um framleiðslugeta upp á 5,7 milljón daglegar tunnur hafi tapast vegna hennar. Um er að ræða mestu truflun á olíuframleiðslu í sögunni, stærri tjónið sem af hlaust í kjölfar byltingarinnar í Íran 1979 og innrás Íraka í Kúveit árið 1990. 

„Hagkerfi heimsins má illa við hærra heimsmarkaðsverði á olíu á þessum tíma efnahagssamdráttar,“ hefur Bloomberg eftir Ole Hansen hjá hinum danska Saxo Bank. 

Sádar telja að þeim muni takast að koma framleiðslunni á skrið innan nokkurra daga en óljóst er hvenær fullri framleiðslugetu verður náð á nýjan leik. Mögulegt er að ríkisolíufyrirtækið Aramco muni ekki geta staðið við samninga um afhendingu á olíu ef nokkrar vikur tekur að ná fullri getu. 

Uppfært 16. september 08:31 Frá því fréttin var rituð hefur hækkunin gengið til baka að hluta. Stendur tunnan nú í tæpum 68 dollurum.

Hér má sjá fleiri fréttir um olíuframleiðslufyrirtæki Sádi Arabíu, Aramco: