Ef niðurstöður nýrrar könnunar Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið koma upp úr kjörkössunum á laugardag munu átta flokkar komast í borgarstjórn, af sextán í framboði, en meirihlutinn samt sem áður halda velli.

Samkvæmt könnuninni er Framsóknarflokkurinn inni með mann með 3,6% atkvæða og Sósíalistar sömuleiðis með 3,9% atkvæða. Hins vegar er Flokkur fólksins ekki inni með 3,4%.

Meirihlutinn með minnihluta atkvæða

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í minnihluta, mælist með 26,3% og 7 menn en Samfylkingin mælist með 31,8% og 8 menn. Vinstri græn og Píratar fá sína tvo fulltrúa hvor, með 8,0% og 7,4% atkvæða, og því halda flokkarnir þrír meirihlutanum, 12 af 23 borgarfulltrúum, með 47,2% atkvæða.

Fjórði meirihlutaflokkurinn, Björt framtíð er ekki í framboði, en Viðreisn er það hins vegar, og mælist hún með 4,9% atkvæða og einn mann inn. Miðflokkurinn mælist svo með 6,5% og einn mann.

Þróa borgina áfram inn á við eða breyta borginni

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og oddviti Samfylkingar segir kostina í borgarstjórn verða skírari „og fleiri og fleiri að verða þeirrar skoðunar að þróa eigi borgina áfram inn á við.“

Hann nýtur stuðnings 43,5% í spurningu um hvern fólk vill sjá sem borgarstjóra, sem er minna hlutfall en flokkarnir sem standa að meirihlutanum eru með. Eyþór Arnalds borgarstjóraefni og oddviti Sjálfstæðismanna var nefndur af 29,4%, sem er meira en stuðningurinn við flokkinn sjálfan.

Hann segir stöðuna geta orðið flókna í borginni en hann sé sannfærður um að flokkurinn fái meira upp úr kjörkössunum. „Við erum eini stóri flokkurinn sem getur náð að knýja fram breytingar í borginni og ég er viss um að við munum fá fólk með okkur í þá vegferð.“

Vigdís stefnir á 4 borgarfulltrúa

Vigdís Hauksdóttir oddviti Miðflokksins er þriðja algengasta nafnið sem fólk nefnir sem borgarstjóra, en 8,5% aðspurðra nefndu hana, sem er 2 prósentustigum meira en flokkurinn hennar mælist með. Vigdís segir það segja mikið að svarhlutfallið sé innan við 50% í könnuninni „en þar liggja tækifæri Miðflokksins og við stefnum á að ná a.m.k. fjórum borgarfulltrúum.“

Könnuninni svöruðu 1.610 en hún var send á 3.650 manns og er því þátttakan 44%. Frá því er sagt að vegna mistaka hafi einu framboði verið sleppt í könnuninni, Borginni okkar - Reykjavík, framboði Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur borgarfulltrúa og fyrrum oddvita Framsóknar og flugvallarvina. Könnunin hafi því verið send öllum sem höfðu svarað á ný í gær ef vildu breyta.

Hér má sjá hvernig stuðningurinn skiptist í könnuninni:

 • 31,8% og 8 fulltrúar - Samfylkingin, fékk 31,9% árið 2014.
 • 26,3% og 7 fulltrúar - Sjálfstæðisflokkur, fékk 25,7% árið 2014.
 • 8,0% og 2 fulltrúar - Píratar, fékk 5,9% árið 2014.
 • 7,4% og 2 fulltrúar - Vinstri græn, fékk 8,3% árið 2014.
 • 6,5% og 1 fulltrúi - Miðflokkurinn
 • 4,9% og 1 fulltrúi - Viðreisn
 • 3,9% og 1 fulltrúi - Sósíalistaflokkurinn
 • 3,6% og 1 fulltrúi - Framsóknarflokkurinn, fékk 10,7% árið 2014
 • 3,4% og engan fulltrúa - Flokkur fólksins,
 • 0,9% og engan fulltrúa - Kvennaframboðið
 • 0,9% og engan fulltrúa - Karlalistinn
 • 0,8% og engan fulltrúa - Íslenska þjóðfylkingin
 • 0,6% og engan fulltrúa - Höfuðborgarlistinn
 • 0,6% og engan fulltrúa - Alþýðufylkingin
 • 0,4% og engan fulltrúa - Borgin okkar - Reykjavík
 • 0,0% og engan fulltrúa - Frelsisflokkurinn

Hér má lesa eldri fréttir um fylgi flokkanna í borginni:

Hér má lesa skoðanadálka, leiðara og pistla í Viðskiptablaðinu um málefni Reykjavíkurborgar: