Magnús M. Norðdahl formaður kjörstjórnar Eflingar segir að í þessum fyrstu formannskosningum í sögu félagsins þar sem kjósa þarf á milli frambjóðenda sé stöðugur straumur kjósenda á kjörstað að því er Fréttablaðið greinir frá.

Kjörstaðir eru opnir til 20:00 í kvöld, en kosið er í höfuðstöðvum félagsins í Guðrúnartúni. Á kjörskrá eru ríflega 16 þúsund manns af tæplega 25 þúsund félagsmönnum í Eflingu. Magnús segir að nokkuð hafi verið um að fólk hafi kært sig inn á kjörskrá frá því að kosning hófst, þá helst þá sem greiða í félagið en hafi ekki sótt um fulla aðild. Mikið hefur verið að gera á kjörstað strax frá opnun að sögn Magnúsar.

„Svo er opið til átta í kvöld og ég á von á að það verði mikið seinnipartinn líka,“ segir Magnús, en kosningin er á milli A-lista, studdum af stjórn og trúnaðarráði félagsins annars vegar og mótframboði B-lista studdum af Ragnari Þór Ingólfssyni formanni VR hins vegar.

A-listinn er leiddur af Ingvari Vigur Halldórssyni sem setið hefur í stjórn félagsins um árabil líkt og segir á vef félagsins. B-listinn er svo leiddur af Sólveigu Önnu Jónsdóttur, starfsmanni á leikskóla í Reykjavík. Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá talaði Ragnar Þór Ingólfsson fyrir því að kjarasamningar ASÍ yrðu felldir og kaus eftir því fyrir hönd félags síns á formannafundi sambandsins í síðustu viku.

Fráfarandi formaður félagsins, Sigurður Bessason, í hvers stjórn Ingvar Vigur hefur setið, gerði það líka, en atkvæðavægi þessara tveggja stærstu aðildarfélaga sambandsins, auk annarra sem kusu í sömu áttina, dugði ekki til að fella samninga, vegna kosningakerfis sambandsins.

Hér má lesa frekari fréttir um afstöðu ASÍ til þess að fella eða halda kjarasamningum:

Hér má lesa frekari fréttir um málefni tengd nýjum formanni VR:

Hér má lesa skoðanapistla um nýjan formann VR: