*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 24. ágúst 2019 13:06

VR nær sínu fram gagnvart LV og FME

Ákvörðun VR um að afturkalla stjórnarmenn í Lífeyrissjóði verzlunarmanna stendur. Ný í stjórn samþykkti starfslokasamning.

Ritstjórn
Guðrún Johnsen er ein þeirra sem tekur sæti í stjórn LV í kjölfar samkomulags þar sem VR fær sínu framgengt, þrátt fyrir ábendingar FME, um að stjórnarmenn eigi einungis að fylgja lögum í starfi sínu.
Haraldur Guðjónsson

Sitjandi stjórnarmenn í Lífeyrissjóði verzlunarmanna sem sitja þar í nafni VR munu láta af störfum og í stað þeirra munu nýir stjórnarmenn tilnefndir af launþegafélaginu taka sæti þeirra samkvæmt samkomulagi sem náðst hefur í deilum um málið.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um ákvað stjórn VR að afturkalla umboð stjórnarmanna sinna í sjóðnum í kjölfar hækkunar á vöxtum sjóðsins. Fjármálaeftirlitið benti í framhaldinu á að stjórnarmenn mættu ekki vera bundnir neinu öðru en lagalegri skyldu sinni til að ná hámarksávöxtun fyrir sjóðsfélaga.

Síðan var bent á það í pistli Huginn og Muninn í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn að Guðrún Johnsen sem var ein þeirra sem VR skipaði í stjórnina í stað fyrri stjórnarmanna hafði komið að ákvörðun um 150 milljóna króna starfslokagreiðslu til fyrrverandi bankastjóra Arion banka.

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR sem á sínum tíma gagnrýndi starfslokagreiðsluna harðlega sagðist samt sem áður bera fullt traust til Guðrúnar, og vísaði í að hann mæti þyngra afstaða hennar til sölu á hlutum í Bakkavör.

Seint í gærkvöldi tilkynnti svo eins og áður sagði VR um að samkomulag hefði náðst við bæði fráfarandi stjórnarmenn og Fjármálaeftirlitið um málalok, en samkvæmt því mun ákvörðun um að skipta út stjórnarmönnunum standa.

Á móti kemur virðist vera sem VR felli niður dómsmál sem hefur verið rekið vegna tilnefningarinnar og yfirlýsing um að VR fallist á sjónarmið FME og lífeyrissjóðsins „um að óæskilegt sé að þeir sem fara með vald til tilnefningar í stjórn sjóðsins hlutist til um ákvarðanir sjóðsstjórnar með því að skipta út stjórnarmönnum áður en kjörtímabili þeirra lýkur og vonar að slík inngrip heyri nú sögunni til.“

Eins og gefur að skilja lýsir VR mikilli ánægju með þessi málalok, enda segja þeir nauðsynlegt að ljúka deilunni og koma á ró í starfsemi sjóðsins. Þarna hafi allir aðilar haft hagsmuni sjóðsins í fyrirrúmi og málalokin gerð í sátt allra aðila með framtíð sjóðsins að leiðarljósi.

Loks segir í tilkynningunni að „VR þakkar fráfarandi stjórnarmönnum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna fyrir vel unnin störf í þágu sjóðsins og félagsins og óskar þeim velfarnaðar.“

Hér má lesa pistla um VR:

23. ágúst 2019 - Margblessuð starfslok

Hér má lesa frekari fréttir um mál VR: