*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 21. september 2020 11:33

Breyttur hluthafahópur í Icelandair

Þrír stærstu hluthafarnir í Icelandair fyrir útboðið halda ekki sínum hlut þó sá stærsti hafi tekið þátt öfugt við hina.

Ritstjórn
Gísli Freyr Valdórsson

Hlutir margra stærstu eigenda í Icelandair minnka í kjölfar hlutafjárútboðs félagsins fyrir helgi, þar á meðal þeirra stærstu Stefnis og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, en þeir hafa verið stærsti og næststærstu eigendurnir í Icelandair að því er Fréttablaðið segir frá.

Aðrir stórir hluthafar eins og PAR Capital, Birta og Frjálsi lífeyrissjóðurinn tóku ekki þátt í útboðinu sem verið hefur í undirbúningi síðustu misseri, en nokkrir aðrir lífeyrissjóðir bættu nokkuð við hlut sinn, þar á meðal Almenni lífeyrissjóðurinn og Brú sem er nú kominn í tæplega 5% eignarhlut.

Ekki er vitað hvort Högni Pétur Sigurðsson eigandi Hard Rock Café sem var fyrir stærsti einkafjárfestirinn í Icelandair með 3,4% hlut hafi tekið þátt í útboðinu, en hins vegar tók Pálmi Haraldsson sem átti um 3% þátt í gegnum félög sín Sólvöll og Ferðaskrifstofu Íslands. Hins vegar tók Vænting ehf., fjárfestingafélag Bláa lónsins sem átti 1,3% fyrir, ekki þátt.

Afstaða fulltrúa launþega vakti furðu

Sjóðir í stýringu Stefnis, sem er sjóðstýringafyrirtæki Arion banka, áttu fyrir útboðið stærsta hlutann, 12,25% samanlagt í flugfélaginu en þó þeir hafi tekið þátt í útboðinu er talið að hlutur þeirra muni minnka töluvert með tilkomu nýrra hluthafa.

Enn frekar líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku mun hlutur Lífeyrissjóðs Verzlunarmana, sem var næst stærsti hluthafinn með 11,8%, minnka því fjórir stjórnarmenn sjóðsins voru á móti, en fjórir með tillögu um kaup á bréfum fyrir 2,5 milljarða sem hefði látið sjóðinn nokkurn veginn halda sínum rúmlega 11 prósenta hlut í félaginu.

Haft er eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, varaformanni stjórnar lífeyrissjóðsins að hún furði sig sig á afstöðu fulltrúa launþega um að hafna þátttöku en hún sagði fulltrúa atvinnurekenda hafa verið samstíga í því að taka þátt.

Margir stórir tóku ekki þátt öfugt við lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins

Jafnframt mun eignarhlutur þriðja stærsta hluthafans, bandaríska fjárfestingarsjóðsins PAR Capital, minnka því hann tók ekki þátt í útboðinu. Sjóðurinn hafði verið stærsti eigandinn um tíma en selt sig smátt og smátt út síðustu misseri og var eignarhluturinn kominn niður í um 10% fyrir útboðið.

Eins og sagt var frá í fréttum á dögunum skráði sá fjórði stærsti, LSR, sig hins vegar fyrir nægilega hárri upphæð til að halda sínum 8,25% eignarhlut. Viðskiptablaðið sagði svo frá því fyrir helgi að Gildi, sem var fimmti stærsti eigandinn, tæki einnig þátt þrátt fyrir skiptar skoðanir í stjórninni, en ekki er vitað hvort hann hafi skráð sig fyrir nægilega mörgum hlutum til að halda sínum 7,24% hlut fyrir útboðið.

Sjötti stærsti eigandinn fyrir útboðið, Birta, tók heldur ekki þátt og mun því 7,07 hlutur hans í félaginu minnka sem nýju hlutunum nemur en þeir verða um 80% alls hlutafjár í félaginu.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem átti fyrir útboðið 2,84% hlut og var þar með sjöundi stærsti eigandinn, skráði sig heldur ekki fyrir nýjum hlutum, en sama gilti um bæði Festu lífeyrissjóð og Íslenska lífeyrissjóðinn, sem hvorugur voru þó í hópi tuttugu stærstu hluthafana fyrir útboðið.

Nýttu tækifærið til að stækka sinn hlut

Landsbréf voru svo áttundi stærsti eigandinn með 1,91% hlut fyrir útboðið en ekki er vitað um þátttöku þeirra, en sá níundi, Brú lífeyrissjóður sem var með 1,77% hlut, tók þátt fyrir tæplega 1,3 milljarða króna sem stækkar hlut sjóðsins í tæplega 4,8% í flugfélaginu.

Almenni lífeyrissjóðurinn tók einnig þátt, og jók hlut sinn úr 1,5% í 1,8% með kaupum á hlutum fyrir 441 milljón króna. Lífeyrissjóðurinn Lífsverk tók þátt en þeir áttu ekki stóran hluta fyrir, sem og Eftirlaunasjóður Félags íslenskra flugmanna, sem keypti fyrir 439 milljónir í flugfélaginu.

Íslandssjóðir, sjóðstýringafélag Íslandsbanka tóku vel þátt að sögn Kjartans Smára Höskuldssonar framkvæmdastjóra. Loks tók Stapi lífeyrissjóður þátt og ætluðu þeir að halda sínum 1,36% hlut og keyptu því fyrir 240 milljónir króna.

Hér má lesa frekari fréttir um hlutafjárútboð Icelandair:

Stikkorð: Icelandair útboð hluthafar